Categories
Fréttir

„Breytum reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda“

Deila grein

31/03/2023

„Breytum reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi síðustu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í störfum þingsins.

„Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað. Þær jákvæðu fréttir berast þó að verðbólgan virðist vera að þokast niður,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Allt of margir eiga erfitt með afborganir lána og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir, sem þó getur reynst erfitt eins og markaðurinn lítur út í dag. Þróunin mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið á enda. Þá hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði dregist verulega saman. Þetta er vond þróun,“ sagði Ágúst Bjarni.

Húsnæðismarkaðurinn er í dag botnfrosinn, horfir Ágúst Bjarni til þess rýmka verði reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Eins nefndi hann hugmyndir um að breyta reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda til að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði.

„Mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir, þótt tímabundnar geti verið, fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu misserum. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu er það okkar hér á þingi að bregðast við því,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Eins og þing og þjóð hefur ekki farið varhluta af kynnti seðlabankastjóri tólftu stýrivaxtahækkunina í röð í síðustu viku. Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað. Þær jákvæðu fréttir berast þó að verðbólgan virðist vera að þokast niður. Afleiðingar hækkunar eru auðvitað margþættar. Allt of margir eiga erfitt með afborganir lána og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir, sem þó getur reynst erfitt eins og markaðurinn lítur út í dag. Þróunin mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið á enda. Þá hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði dregist verulega saman. Þetta er vond þróun. Húsnæðismarkaðurinn sem hefur verið í mikilli grósku undanfarin ár virðist vera botnfrosinn. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að horfa til rýmkunar á reglum og kröfum um veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Við þurfum núna að breyta reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda til að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði. Við þurfum núna að greina umhverfi framkvæmdaraðila. Mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir, þótt tímabundnar geti verið, fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu misserum. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu er það okkar hér á þingi að bregðast við því.

Virðulegur forseti. Það eru ýmis verkfæri til staðar og nú er spurningin um að nýta þau. Ég er tilbúinn til að vinna að lausn mála og kalla eftir því að fleiri verði með mér í því liði.“