Categories
Fréttir

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Deila grein

10/10/2019

Byggðaáætlun og heilbrigðisstefna tryggja framsækna þjónustu

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, benti á í störfum þingsins í gær að þar sem segir í stefnumótandi byggðaáætlun að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu og nýjustu tækni sem tengi byggðir saman að þá sé mjög ánægjulegt sjá að Landspítali hafi komið á samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða um bætt aðgengi að sérfræðilæknum.
„Verkefnið er í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu um að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu um landið og byggðaáætlun eins og fyrr er vísað til. Þarna er verið að spara tíma, löng ferðalög og dýr, svo að ekki sé talað um vinnutap. Einnig er mjög mikilvægt að verið er að styrkja gagnkvæma faglega ráðgjöf milli heilbrigðisstarfsmanna,“ sagði Halla Signý.
„Þörf lækna og hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni fyrir aðstoð og ráðleggingar frá sérfræðingum Landspítala er mikil og getur skipt sköpum við meðferð sjúklinga. Bætt samskipti eru ávinningur, flækjustigið er minnkað og það getur sparað tíma og stytt bataferli. Mest af slíkum samskiptum fer fram með símtölum og tölvupóstum eins og staðan er í dag,“ sagði Halla Signý.
„Það er því mjög ánægjulegt að sjá að nýsamþykkt byggðaáætlun og heilbrigðisstefna eru farnar að vinna í rauntíma,“ sagði Halla Signý.