Categories
Fréttir

Byggðirnar fá að blómstra!

Deila grein

20/12/2022

Byggðirnar fá að blómstra!

Frá því síðast hefur margt drifið á daga þingmanna Framsóknar. En það má segja að enginn dagur sé eins.

Í síðustu viku var fjöldi mála afgreiddur, m.a. fjárlög 2023. Meginmarkmið þeirra fjárlaga snúa að fjórum lykilþáttum:

  • Stefnt er að því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári.
  • Stjórnarmeirihlutinn stefnir að draga úr mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og styðja við markmið Seðlabankans um að draga úr verðbólguþrýstingi.
  • Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, með því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgunnar.
  • Innviðir og grunnþjónusta verða styrkt og raunvirði bóta almannatrygginga verði viðhaldið.

Lífskjarasókn ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á sl. árum, og staða þeirra hefur aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd.

Ríkisstjórnin tilkynnti í tengslum við gerð kjarasamninga hækkun á húsnæðisbótum ætlað leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Eins á að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.

Mikilvægast af öllu verður að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum til að styðja við markmið samninga. Verkefnið er að verja kaupmátt og lífskjör launafólks, m.a. ná niður verðbólgu og vöxtum.

Á haustþingi fer annars mikill tími Alþingis í vinnu vegna fjárlaga hvers árs. Þess til viðbótar eru umræður um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga, eða „bandormurinn“ svokallaði. Hann hefur að geyma efnisatriði af margvíslegum toga, sem hafa áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Fjárlög fyrir næsta ár snúast um skynsama stjórnun fjármagns og að fjárfesta í fólki. Áherslur Framsóknar á sviði heilbrigðismála, velferðar, byggðarmála, stuðnings við heimili og félagslegs stuðnings má finna um allt frumvarpið. Þingflokkurinn er stoltur af árangrinum í krefjandi aðstæðum í kjölfar heimfaraldurs, stríðs í Evrópu o.fl.

Þingmenn Framsóknar hafa markvisst lagt sig fram við að koma framfaramálum á dagskrá Alþingis. Með lagafrumvörpum, þingsályktunum, fyrirspurnum, sérstökum umræðum og störfum þingsins. Vil ég nefna nokkra þætti til að veita smá yfirsýn á störfin í haust.

Þórarinn Ingi Pétursson hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Þar leggur hann til að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga verði afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast. Að þeim verði gert heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Halla Signý Kristjánsdóttir hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Fara eigi t.d. í heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

Ingibjörg Isaksen hefur lagt fram þingsályktun um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Að útbúið verði mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Þannig verður mögulegt að ná fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.  Ingibörg hefur einnig lagt fram beiðni um skýrslu um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis, sem skal draga fram hugsanlegar aðgerðir til að lækka kostnað vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.

Ágúst Bjarni Garðarsson er með tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.  Þar er m.a. lagt til að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og að launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD, sem standi þeim til boða þeim að kostnaðarlausu.

Jóhann Friðrik Friðriksson er með tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Leggur hann til að sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis og leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Kynheilbrigði er hluti af lýðheilsu þjóðarinnar og getnaðarvarnir gefi einstaklingum tækifæri á því að hafa meiri stjórn á sínu eigin lífi. Fjárhagur ungs fólks er oft mismunandi eftir mánuðum. Suma mánuði kemur fyrir að peningaskortur neyði ungt fólk til að hagræða.

Einnig má nefna nokkrar sérstakar umræður í haust, sem þingmenn Framsóknar hafa haft frumkvæði að. Umræða um fjölþáttaógnir og netöryggismál voru að frumkvæði Jóhanns Friðriks og umræða um störf án staðsetningar að frumkvæði Líneikar Önnu Sævarsdóttur.

Að lokum vill undirrituð hrósa formanni okkar, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir markvissa vinnu við að fjölga störfum úti á landi. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið skortur á opinberum störfum, sérfræðistörfum og öðrum vel borgandi störfum. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa. Sigurður Ingi hefur svo sannanlega staðið fyrir því í verki að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land.

Framtíðin er björt með Framsókn!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen