Categories
Greinar

Bók í hendi um jólin

Deila grein

21/12/2022

Bók í hendi um jólin

Nú þegar stytt­ist í að jól­in verði hringd inn er áhuga­vert að hugsa til tvennra síðustu jóla sem lituðust af jóla­búbbl­um og sótt­varn­ar­regl­um vegna heims­far­ald­urs. Sá veru­leiki virk­ar nú eins og fjar­læg minn­ing og lands­menn nú á fullu að und­ir­búa hefðbund­in jól. Eitt af því sem fylg­ir okk­ur ávallt um jól­in, óháð því hvernig árar, eru bók­mennt­ir. Lest­ur góðrar bók­ar er orðinn órjúf­an­leg­ur hluti jóla­halds­ins á mörg­um heim­il­um, enda fjöldi góðra titla sem skol­ast á nátt­borð lands­manna með hinu ár­lega jóla­bóka­flóði.

Miðstöð ís­lenskra bók­mennta lét ný­lega gera könn­un á viðhorfi þjóðar­inn­ar til bók­lestr­ar en niður­stöðurn­ar gefa sterk­ar vís­bend­ing­ar um að lest­ur sé enn sem fyrr mik­il­væg­ur þátt­ur í lífi lands­manna og að viðhorf fólks sé já­kvætt í garð bók­mennta og lestr­ar. Þannig kom fram að 32% þjóðar­inn­ar lesa einu sinni eða oft­ar á dag og að meðal­fjöldi les­inna bóka var 2,4 bæk­ur á mánuði í sam­an­b­urði við 2,3 bæk­ur að meðaltali í lestr­ar­könn­un árið 2021.

Und­an­far­in ár hef­ur ís­lensk bóka­út­gáfa tekið hressi­lega við sér eft­ir um­tals­vert sam­drátt­ar­skeið. Sú þróun var óæski­leg af mörg­um ástæðum enda er bók­lest­ur upp­spretta þekk­ing­ar og færni, ekki síst barna. Það er óum­deilt að bók­lest­ur eyk­ur lesskiln­ing og þjálf­ar grein­ing­ar­hæfi­leika þeirra, ein­beit­ingu og örv­ar ímynd­un­ar­aflið. Það að gefa hug­an­um greiða leið að undra­heim­um bók­anna er ferðalag sem ger­ir lífið skemmti­legra.

Það hef­ur verið ánægju­legt að fylgj­ast með þeirri kröft­ugu viðspyrnu sem hef­ur átt sér stað í ís­lenskri bóka­út­gáfu og sjá að all­ar þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa ráðist í á umliðnum árum séu að skila sér. Má þar nefna 25% end­ur­greiðslu vegna bóka­út­gáfu á ís­lensku, styrk­ingu lista­manna­launa, hærri höf­unda­greiðslur fyr­ir af­not á bóka­söfn­um, efl­ingu bóka­safna og stofn­un barna- og ung­menna­bóka­sjóðsins Auðar.

Þess­ar aðgerðir spretta ekki úr tóm­inu einu sam­an enda eru bók­mennt­ir samofn­ar sögu okk­ar sem þjóðar og ekki að ástæðulausu að Íslend­ing­ar eru kallaðir bókaþjóð. Sér­hver jól minna okk­ur á þessa staðreynd með svo hlý­leg­um hætti; þegar heim­il­is­fólk er satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og fjöl­skyld­an kúr­ir með jóla­bók í hendi. Fyr­ir mér er þetta ómet­an­leg hátíðar­stund.

Ég óska lands­mönn­um öll­um gleðilegra jóla og hvet þá til þess að njóta alls þess frá­bæra sem bók­mennt­irn­ar hafa fram að færa þessi jól­in. All­ir ættu að geta tekið sér bók í hönd við hæfi um jól­in og gert þau þannig enn hátíðlegri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. desember 2022.