Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, var málshefjandi í sérstakri umræðu um jöfnun dreifikostnaðar á raforku á Alþingi í gær.
„Orkuauðlindir landsins eru í sameign þjóðar og flutningsleiðir raforku einnig. Landsmenn sitja þó ekki við sama borð þegar kemur að flutningi á raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa. Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. fyrir dreifbýli og þéttbýli,“ sagði Halla Signý.
Stöðugt dregur í sundur
„Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Nú er svo komið að það er u.þ.b. fjórðungi hærra í dreifbýli þrátt fyrir jöfnunargjaldið sem sett var á til að jafna dreifikostnað á raforku í landinu.
Í raforkulögum frá 2003 voru sett inn tekjumörk, um hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækja og dreifiveitna til að mæta kostnaði. Þannig var kominn grundvöllur að aðskilnaði milli þéttbýlis og dreifbýlis í gjaldskrám og í kjölfarið var svo sett jöfnunargjald sem á að nota til að jafna þennan mun,“ sagði Halla Signý.
Fjárfestingarþörf og endurnýjunarþörf er meiri í dreifbýli
„Skýringin á sífellt hækkandi kostnaði vegna dreifingu raforku er að kaupendum raforku fækkar í dreifbýlinu og fjárfestingarþörf og endurnýjunarþörf er meiri í dreifbýli en þéttbýli og einnig vegna átaksverkefnis um þrífösun rafmagns. Þetta leiðir af sér aukinn mun á meðalverði í þéttbýli og dreifbýli. En enn eykst munurinn og hvar er þá jafnréttið og þau sjálfsögðu mannréttindi að sitja við sama borð þegar orkuauðlindir eru annars vegar?
Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hefur aldrei verið ætlunin í lagasetningu að mismuna fólki með aðgangi að raforku eftir því hvar það býr á landinu. Þessi ójöfnuður er þó staðreynd og við verðum að fara að leiðrétta þennan mun og það helst strax.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. Þeir sem hafa í hyggju að fara í orkufreka atvinnustarfsemi í dreifbýli eins og ferðaþjónustu, garðyrkjuframleiðslu eða smáiðnað þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en lagt er af stað í rekstur, svo ekki sé talað um heimili sem búa við þennan aðstöðumun.
Við erum líka með nýsamþykkta byggðaáætlun þar sem fram kemur að markmiðið sé að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli, bæði hvað varðar dreifingu á raforku og húshitunarkostnaði. Núverandi stjórnvöld eru því svo sannarlega með viljann til að mæta þessum mun,“ sagði Halla Signý.
Þá spyr ég hæstv. ráðherra:
Hvernig miðar vinnu atvinnuvegaráðuneytisins með Orkustofnun við að greina og finna hagkvæmustu leiðina til að jafna dreifikostnað á raforku?
Hvaða áhrif telur ráðherra að sameining dreifiveitna verði á dreifikostnaði á raforku?
Telur ráðherra að tekjumörk vegna kostnaðar við flutning á raforku til dreifiveitna sé verkfæri til að jafna dreifikostnað á raforku?
Hver telur ráðherra að ávinningur af jöfnun dreifikostnaðar á raforku sé á orkufreka atvinnustarfsemi í dreifbýlinu?