Categories
Fréttir

„Eins og kerfið er núna tapa allir.“

Deila grein

26/11/2019

„Eins og kerfið er núna tapa allir.“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í umræðu um jöfnun dreifikostnaðar á raforku á Alþingi í gær að fyrir sér væri málið einfalt, allir landsmenn eiga að borga sama verð fyrir dreifingu raforku.
„Raforkan er framleidd víða um land. Til að framleiða hana notum við sameiginlega auðlind og dreifiveitur eru flestar í opinberri eigu. Dreifiveiturnar voru byggðar upp á löngum tíma og stöðugt þarf að halda þeim við og bæta. Heimili og atvinnurekstur í dreifbýli eiga að búa við sömu rekstrarskilyrði og í þéttbýlinu. Það eiga að vera sömu samkeppnisaðstæður. Ég lít svo á að við eigum að sameina dreifbýlisgjaldskrár og þéttbýlisgjaldskrár í eina og gera það strax,“ sagði Líneik Anna.

„Eins og kerfið er núna tapa allir.“

„Raforkufyrirtækin tapa viðskiptavinum þegar atvinnurekstur gefst upp vegna lakari samkeppnisaðstöðu í dreifbýlinu, annaðhvort hættir orkufrekur atvinnurekstur rekstri eða flytur sig í þéttbýli. Samfélagið tapar og sömuleiðis atvinnu- og nýsköpunartækifæri því að til að komast á þéttbýlisgjaldskrá þarf orkunotkunin að vera orðin mjög mikil. Færri og færri standa undir kostnaðinum við uppbygginguna og viðhaldið í dreifbýlinu,“ sagði Líneik Anna.
„Jöfnun hækkar vissulega heildarraforkuverð til þeirra sem búa við þéttbýlisgjaldskrá um einhverja þúsundkalla á ári. En hver er hindrunin? Erum við hrædd við villandi umræðu sem hefur farið fram að undanförnu, t.d. í tengslum við afgreiðslu orkupakka þrjú? Við megum ekki láta þannig umræðu koma í veg fyrir jöfnun dreifikostnaðar.
Þegar allir greiða sama verð fyrir dreifingu verður strax einfaldara að jafna húshitunarkostnað á köldum svæðum og móta markvisst og gagnsætt stuðningsumhverfi fyrir orkufreka og umhverfisvæna framleiðslu eins og grænmetisframleiðslu,“ sagði Líneik Anna.