Categories
Fréttir

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

Deila grein

19/11/2022

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

„Eitt stærsta kvikmyndaver Evrópu er staðsett hér á landi, nánar tiltekið í Gufunesinu í Reykjavík. Þessa dagana er margt um að vera þar enda er gríðarlegt umfang á svæðinu þar sem m.a. ný sería af hinni margverðlaunuðu þáttaröð True detective er tekin upp. Þar er einnig tekið upp á Norðurlandi en sögusvið seríunnar er Alaska í Bandaríkjunum,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í liðinni viku.

„Með stóru kvikmyndaveri og því sjónarspili sem íslensk náttúra er hefur Ísland lengi verið aðlaðandi starfsumhverfi til kvikmyndagerðar. Tækifærin eru fjölmörg og við í Framsókn vildum grípa þau. Meðal áherslna Framsóknar fyrir síðustu alþingiskosningar var að efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Þessar áherslur rötuðu einnig í stjórnarsáttmálann og hafa raungerst í dag og við sjáum þá miklu grósku sem sú ákvörðun leiddi til,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Í öllu þessu felst töluvert aðdráttarafl fyrir erlenda kvikmyndaframleiðendur og ég tek undir það þegar þau orð eru sögð að kvikmyndaiðnaðurinn geti vel verið ein af stoðgreinum íslensks efnahagslífs. Mikið af afleiddum störfum myndast í kringum svona verkefni og það er út af framtaki ríkisstjórnarinnar sem það er möguleiki að taka upp þættina sem ég nefndi áðan hér á landi.“

„Því skiptir miklu máli að styðja áfram vel við kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Við sjáum það að kvikmyndaverin hér á landi er uppbókuð fram á vor sem sýnir hversu eftirsóknarvert Ísland er í þessum geira. Í þessu felast endalausir möguleikar og mikill ábati fyrir íslenskt atvinnulíf.“

„Með hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í broddi fylkingar getum við margfaldað kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi og framleiðendur á Íslandi telja það vel raunhæft. Við getum með sanni sagt að þetta er frábær viðbót við efnahagslíf á Íslandi og sterk stoð til framtíðar,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.