„Hæstv. forseti. Núna er LÍN-frumvarpið komið til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og í því eru margir ágætir punktar. Þó er einn punktur sem ég hef áhyggjur af og það eru landsbyggðarnámsmennirnir, þ.e. krakkar sem geta ekki sótt menntaskóla eða háskóla heiman frá sér og þurfa því að flytjast að heiman. Þetta er mjög dýrt fyrir þennan hóp. Hann fer að heiman 16 ára gamall og þarf kannski að búa hjá ættingjum og vinum, ekki eru til neinir nemendagarðar fyrir þessa krakka sem koma t.d. til Reykjavíkur og eru ekki einu sinni orðnir sjálfráða. Svo kemur að háskólanum og þá er þetta enn þá mjög dýrt, og það er auðveldara fyrir þá einstaklinga sem búa áfram í heimahúsi, þ.e. hjá foreldrum, en þá sem þarf að kosta til náms. Ég tel að frítekjumarkið geti verið ákveðin leið fyrir landsbyggðarnemendurna til að bjarga sér og ég tel að hækkun þess mundi búa til fleiri möguleika fyrir námsmenn almennt að sækja sér starfsreynslu út frá áhugasviði og jafnvel því námi sem þeir eru í frekar en að horfa bara á útborgaða upphæð. Enginn sem vinnur yfir sumartímann, er í háskólanámi og tekur námslán veður í peningum. Ég tel því alveg óhætt að taka aftur þá umræðu sem við tókum fyrir um tveimur árum um að hækka frítekjumark námsmanna enn frekar um leið og við vinnum að þessu nýja frumvarpi.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 23. ágúst.
Categories
Ég hef áhyggjur af landsbyggðarnámsmönnum
26/08/2016
Ég hef áhyggjur af landsbyggðarnámsmönnum