Categories
Fréttir

Skilið hagnaðinum til heimilanna

Deila grein

26/08/2016

Skilið hagnaðinum til heimilanna

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum þegar ég skoðaði fjölmiðla í morgun en þar má lesa nokkrar fyrirsagnir á þennan veg: „Lykilstarfsmenn geta skipt á milli sín 1.500 milljóna bónuspotti.“ Hér er verið að fjalla um að stjórn Kaupþings vilji bónuskerfi fyrir starfsmenn. Í fréttinni kemur fram að gangi áætlanir eftir gæti bónusinn orðið á bilinu 50–100 millj. kr. á mann. Það kemur fram að starfsmenn geti fengið þessar bónusgreiðslur nái þeir tilteknum markmiðum sem eru að hámarka virði óseldra eigna Kaupþings.

Ég geti ekki annað en spurt: Hvaða eignir er hér um að ræða? Er um að ræða fyrrum heimili fólks, heimili sem boðin voru upp og bankinn keypti á lágu verði og ætlar nú að hámarka hagnað sinn? Er það svo? Ég spyr því að ég veit það ekki. Ég vil fá svör og mér finnst það samfélagsleg ábyrgð þessara stofnana að gefa okkur svör eftir það sár sem varð í samfélaginu í kjölfar bankahrunsins.

Önnur fyrirsögn er orðuð svo: „Íslandsbanki hagnast vel vegna Borgunar.“ Bankinn hagnast um 13 milljarða kr. á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við 10,8 milljarða kr. á sama tíma í fyrra.

Í gær heyrðum við hins vegar fréttir af því frá starfsmönnum sama banka að hér sé svo mikill óstöðugleiki að vaxtastigið verði að vera svo hátt og það séu 20–30 ár þar til við getum fengið sömu vexti og nágrannalöndin okkar bjóða upp á. Ég spyr: Hvað er eiginlega í gangi? Bankarnir græða á tá og fingri og á meðan borga heimilin gríðarlega há vaxtagjöld og þeir liðir bankaþjónustunnar sem rukkað er fyrir hafa sjaldan verið meiri. Hér er ekki endalaust hægt að tala um einskiptisaðgerðir.

Er ekki kominn tími til að skila hagnaðinum til heimilanna, t.d. með lægra vaxtastigi, og skapa traust milli fjármálastofnana og almennings? Eða þarf að skattleggja þessar stofnanir enn frekar og sækja peninga inn til þeirra? Er það kannski eina leiðin?“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 23. ágúst 2016.