Categories
Fréttir

Nýjasta uppákoman þar sem borgin kaupir land

Deila grein

26/08/2016

Nýjasta uppákoman þar sem borgin kaupir land

líneik„Virðulegi forseti. Enn og aftur ætla ég að gera framtíð Reykjavíkurflugvallar að umtalsefni. Ólíkt hafast sveitarfélög landsins að gagnvart sjúkraflugi þessa dagana. Það skýtur skökku við að grafið sé undan sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvelli á meðan sveitarfélög úti á landi gera það sem þau geta til að styðja við það. Nýlega var undirritaður samningur um uppbyggingu Norðfjarðarflugvallar þar sem sveitarfélagið Fjarðabyggð og fyrirtæki í Fjarðabyggð leggja til helming þess fjár sem þarf við malbikun vallarins á móti ríkinu. Þetta er gert þrátt fyrir að ríkisvaldinu beri að tryggja þá innviði samfélagsins sem snúa að öryggis- og heilbrigðismálum landsmanna. Á sama tíma kýs sveitarfélagið Reykjavíkurborg að loka mikilvægri öryggisflugbraut fyrir sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli. Nýjasta uppákoman þar sem borgin kaupir land af ríkinu, að því er virðist á grunni umdeilanlegra heimilda, er í hæsta máta undarleg. Hvernig má það vera að einstakir ráðherrar geti tekið ákvarðanir og undirritað skuldbindingar sem hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar fyrir almannaöryggi í landinu og raun ber vitni án þess að setja samtímis af stað vinnu við mótvægisaðgerðir? Það er ekki ásættanlegt að á suðvesturhorninu sé engin norðaustur-/suðvesturflugbraut.

Hæstv. forseti. Á þessum tímapunkti finnst mér annars vegar mjög mikilvægt að fá fram afgerandi vilja þjóðarinnar um það hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík og hins vegar verða stjórnvöld að koma af stað vinnu þar sem allir hagsmunaaðilar koma saman að lausn málsins, þar á meðal Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið. Það mun aldrei leiða til lausnar að hver hrópi í sínu horni og síðan séu mál rekin fyrir dómstólum þess á milli.“

Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 23. ágúst 2016.