Categories
Fréttir

Heimilin njóti hagnaðarins

Deila grein

29/08/2016

Heimilin njóti hagnaðarins

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins í gær ræddi ég m.a. bankabónusa hjá eignarhaldsfélaginu Kaupþing og gagnrýndi þá ákvörðun verulega. Einnig ræddi ég gríðarlegan hagnað Íslandsbanka. Nú bíðum við og sjáum hvaða hagnaðartölur birtast hjá hinum bönkunum, m.a. Landsbanka og Arion banka. Í ræðu minni í gær hvatti ég til þess að fjármálastofnanir sem skila svona hagnaði leyfi heimilum landsins að njóta þess t.d. með lægra vaxtastigi eða með því að fella niður þjónustugjöld eða a.m.k. fækka þeim liðum þjónustunnar sem rukkað er um. Mikilvægt er að auka traust milli almennings og fjármálastofnana en því hefur hrakað verulega frá efnahagshruninu 2008. Það sjá allir sem vilja sjá.
Í dag fáum við þær góðu fréttir að Seðlabanki Íslands hafi loksins ákveðið að lækka stýrivexti um 0,5 prósentustig. Samkvæmt fréttum má rekja þessa lækkun til stöðugleika í efnahagsmálum. Þessar fréttir eru jákvæðar og mikilvægt er að þessi þróun haldi áfram. Þessi árangur hefur m.a. átt sér stað vegna ákvarðana, m.a. segi ég, sem teknar hafa verið í ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, en þar skiptir máli að skila hallalausum fjárlögum og greiða niður skuldir ríkissjóð.
Í fréttum í dag kemur jafnframt fram að bankarnir fagni lækkun stýrivaxta og telja þeir að lækkunin muni hafa áhrif á viðskipti við útlönd og jafnvel á vexti íbúðalána, en það kemur síðan fram í sömu frétt að ekki þurfi endilega að vera að vaxtaþróunin haldi áfram í þessa veru.
Mig langar því að lokum að nota síðustu sekúndur ræðu minnar til að ítreka það sem ég sagði í ræðu minni í gær að það er gríðarlega mikilvægt að fjármálastofnanir sem skila hagnaði og búa við gott bú leyfi hagnaði að renna til heimila landsins með lægra vaxtastigi eða færri og lægri þjónustugjöldum sem rukkað er um.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 24. ágúst 2016.