Categories
Fréttir

Vísbending um styrka efnahagsstjórn

Deila grein

29/08/2016

Vísbending um styrka efnahagsstjórn

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að gera það enn og aftur í upphafi umræðu um störf þingsins að lýsa ánægju minni með framgang þingstarfanna, bæði hér í þingsal og í vinnu í nefndum með mörg mikilvæg mál. Það er ekki óeðlilegt að þegar styttist til þingloka og ætlaðar kosningar að órói hlaupi í mannskapinn, og þá mun reyna frekar á hæstv. forseta með skipulag og skýrar áherslur á framgang mála og væntanlega í gegnum góða samvinnu við formenn þingflokka. Þetta segi ég til hvatningar og áherslu á skilvirkni og árangur þingsins þannig að öll sú vinna sem liggur að baki málum skili sér með þeim hætti að afgreiðslan verði sem vönduðust.
En tíðindi dagsins, virðulegi forseti, hlýtur þó að vera ákvörðun peningastefnunefndar um lækkun stýrivaxta um 0,5% þar sem meginvextir Seðlabankans lækka úr 5,75% í 5,25%. Ég velti því upp fyrir viku síðan hvaða ákvörðun peningastefnunefndin tæki í grunninn, hvort peningastefnunefnd mundi halda áfram að einblína á að halda neyslu og lántöku niðri með háum stýrivöxtum eða meta væntingar í takt við þær efnahagslegu forsendur sem liggja fyrir um lágt olíuverð, gengisstyrkingu krónunnar og lágt verð á öðrum innfluttum aðföngum. (ÖS: … gengi KR.) Þegar ég segi tíðindi, virðulegi forseti, þá ásamt hagstæðum skilyrðum, stöðugleika, hefur peningastefnan verið aðhaldssöm og auðvitað er það mikilvægt til að varðveita stöðugleikann. Þessi ákvörðun felur jafnframt í sér vísbendingu um styrka efnahagsstjórn hæstv. ríkisstjórnar og ákvarðanir á þessu kjörtímabili sem gefa fyrirheit um að við getum enn frekar lækkað raunvexti. Þar má nefna lög um opinber fjármál, hófstillta og raunhæfa fjármálastefnu og fjármálaáætlun til næstu fimm ára, hóflega stígandi afgang á fjárlögum þrjú ár í röð og margt fleira. Allt að einu, virðulegi forseti, þetta eru góð tíðindi fyrir almenning og atvinnulíf.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. ágúst 2016.