Categories
Fréttir

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Deila grein

06/12/2018

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, minnti þingheim á alþjóðlegan dag jarðvegs í gær, miðvikudag.
„Jarðvegur er það sem allt líf nærist á og jarðvegur er mjög mikilvæg náttúruauðlind og hann er ekki hægt að endurnýta,“ sagði Halla Signý.
Ég treysti þér, máttuga mold.
Ég er maður, sem gekk út að sá.
Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn,
þegar vor yfir dalnum lá.
– orti Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli
Guðmundur Ingi Kristjánsson sem var bóndi og skildi þá hringrás sem lífið er. Okkur ber skylda að yrkja og varðveita jörðina og skila henni til komandi kynslóða.
Frjómoldin er aðeins þunn skel á yfirborði jarðar. Í henni nærum við meginhluta matvælaframleiðslu heimsins. En jarðarbúum fjölgar hratt og því miður er þessi mikilvæga auðlind jarðar að hopa og verða eyðimerkurmyndun að bráð.
Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra að gera tillögu til breytinga á lögum eða reglugerðum sem miða að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki í fóður.
Í loftslagsstefnu Íslands er það eitt af forgangsmálum að huga að landgræðslu eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018-2030, með leyfi forseta:
„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“
Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett sér aðgerðaáætlun þar sem stefnt er að því að sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027. Liður í því er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá landgræðslunni heim í héruðin undir samvinnuverkefninu Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður í störfum þingsins 5. desember 2018.