Categories
Fréttir

Egilsstaðir og Akureyri eru grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið

Deila grein

23/01/2020

Egilsstaðir og Akureyri eru grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að flugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri séu grunnþjónusta í samgöngukerfi landsins sem tryggi almenningssamgöngur og þar með aðgang að grunnþjónustu. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins í gær.
„Þeir eru líka mikilvægir varaflugvellir vegna millilandaflugs og grunnur að nýjum fluggáttum inn í landið. Það kristallaðist í umræðunni þegar samgönguáætlun var lögð fram í lok síðasta árs að skerpa þarf sameiginlega sýn fyrir þessa flugvelli með heimamönnum. Þann 19. desember urðu svo tímamót í þessum málum með viljayfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til að styrkja völlinn sem hlið eða gátt til landsins í þágu svæðisins alls, Norðurlands og Austurlands, og íslenskrar ferðaþjónustu.
Skipaður var aðgerðahópur til að vinna í samræmi við viljayfirlýsinguna. Honum er ætlað að gera tillögur um endurbætur á flugstöðinni til framtíðar, vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað og loks að gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur mannvirkja og þjónustu. Í hópnum eru fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, SSNE, Markaðsstofu Norðurlands og Isavia.
Fyrsta verkefni samstarfsins er að greina leiðir til að tryggja að flugstöðin geti sinnt sínu hlutverki. Það á að gerast hratt og hópurinn á að ljúka störfum fyrir lok mars 2020. Hópurinn hefur nú þegar fundað tvisvar sinnum. Þá er heimild í fjárlögum til samvinnuverkefnis, PPP-verkefnis, um endurbætur eða stækkun flugstöðvarinnar. Frágengið er að rekstur Egilsstaðaflugvallar færist til Isavia frá byrjun þessa árs og unnið er að útfærslu samningsins um það verkefni. Þar með myndast aukið svigrúm til að efla aðra innanlandsflugvelli innan rekstrarsamnings ríkisins og Isavia, m.a. um Akureyrarflugvöll. Samgönguáætlun er svo til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem tækifæri gefst til að fara vel yfir nýja flugstefnu og skýra framtíðarsýnina enn betur,“ sagði Líneik Anna.