Categories
Fréttir

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

Deila grein

16/01/2024

Einar Þorsteinsson nýr borgarstjóri Reykjavíkur

16. janúar 2024 markar stór tímamót í sögu Framsóknar í Reykjavík. Í dag fóru fram stólaskipti í Ráðhúsinu þegar Einar Þorsteinsson tók við embætti borgarstjóra fyrstur Framsóknarmanna. Til gamans má geta að fyrir 100 árum var Framsóknarfélag Reykjavíkur stofnað, það er því vel við hæfi að Framsóknarfélag Reykjavíkur fagni stórafmælinu með þessum hætti.

Einar leiddi lista Framsóknar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum 14. maí 2022. Þar vann Framsókn stóran kosningasigur með tæp 19% atkvæða og fóru úr engum í fjóra borgarfulltrúa. Framsókn myndaði meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn eftir kosningarnar. Þá var einnig gert samkomulag að þáverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson myndu skipta milli sín embætti borgarstjóra á kjörtímabilinu.

Björg Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður borgarstjóra. Hún starfaði áður hjá Ríkisútvarpinu og gerði garðinn frægan í þáttunum Kappsmál. Björg brennur fyrir fjölskyldumálum og borgarmálum. Hana langar að leggja sitt af mörkum til að styðja við blómlegt stjórnmálastarf Framsóknar í Reykjavík.

Þá hefur Unnur Þöll Benediktsdóttir verið ráðin framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Framsóknar. Unnur Þöll var kosningastjóri í borgarstjórnarkosningum 2022 auk þess er hún varaborgarfulltrúi og fyrrum formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún starfaði einnig sem starfsmaður þingflokks Framsóknar um tíma. Unnur Þöll hefur lengi verið virk í starfi flokksins og því reynslumikil tenging inn í grasrótina.

Framsókn óskar Einari velgengni í nýju embætti og hvetur hans lið í Reykjavíkurborg til áframhaldandi góðra verka.

Hér að neðan má finna ræðu Einars sem hann flutti við borgarstjóraskiptin:

Forseti, ágæta borgarstjórn.

Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka fráfarandi borgarstjóra fyrir vel unnin störf í þágu borgarbúa. Fáir hafa sýnt Reykjavík jafn mikla ræktarsemi og Dagur B Eggertsson sem setið hefur í borgarstjórn frá árinu 2002 og sem borgarstjóri í rúman áratug.

Ég vil þakka borgarstjórn fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt með þessari atkvæðagreiðslu í dag. Ég finn sannarlega til þeirrar miklu ábyrgðar sem mér er falin með þessu starfi og ég hlakka til þess að þjóna borgarbúum úr stóli borgarstjóra Reykjavíkur.

Þegar ég tók þá ákvörðun í febrúar 2022 að bjóða mig fram til borgarstjórnar þá gerði ég mér kannski ekki alveg grein fyrir því út í hvað ég var að fara. Að stíga inn á vettvang stjórnmálanna er enda alltaf óvissuferð – en hún getur leitt mann á fallegar slóðir. Að fara í kosningabaráttu, ræða við íbúana, finna hvernig hjörtun slá og heyra hvað brennur á fólki er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég er þakklátur fyrir þann stuðning sem kjósendur sýndu Framsókn í síðustu kosningum. Sá stuðningur við Framsókn birtist hér í dag.

Nú eru 18 mánuðir liðnir frá því að við hófum þetta kjörtímabil. Og ég ætla ekki að halda því fram að það hafi allt verið dans á rósum. Áskoranirnar eru margar og þannig verður það áfram. Við höfum verið í stanslausri hagræðingu frá því að þessi meirihluti tók við og við verðum í henni áfram enda er markmiðið að skila afgangi á næsta ári – en það gerist ekki nema við höldum áfram þétt um budduna.

En hagræðing er ekki bara hagræðingarinnar vegna. Við erum hér öll inni með það sameiginlega markmið að vilja bæta þjónustuna við íbúa. En við munum ekki ná almennilegum árangri í því að bæta þjónustuna nema að reksturinn sé sjálfbær.

Forseti – Ég vil nefna aðeins samstarfið hér í borginni. Ég held að á þessu kjörtímabili hafi verið meiri sátt og meiri samvinna þvert á flokka í ráðum og nefndum borgarinnar en á síðasta kjörtímabili og ég tel að borgarbúum þætti ánægjulegt að sjá þá breytingu endurspeglast með enn sterkari hætti hér í borgarstjórnarsalnum. 

Hér eru reynslumiklir borgarfulltrúar í bland við nýtt fólk, öll með ólíkan bakgrunn, þekkingu og reynslu og í þessum hópi býr mikill mannauður – og öll höfum við umboð frá kjósendum.  Ég held að borgarbúar vilji að við vinnum saman og ég mun sem borgarstjóri leitast við að ná sátt um mál.  

Ég ætla ekki að fara að rekja öll þau áherslumál sem ég vil setja á oddinn á þessum tveimur og hálfu ári sem eftir eru af þessu kjörtímabili enda er þessi fundur ekki til þess ætlaður. En mig langar að nefna nokkur mál sem ég held að við getum öll, þvert á flokka, unnið saman að.

Við getum hjálpast að við að greiða fyrir húsnæðisuppbyggingu – sem er eitt mikilvægasta hagsmunamál Reykvíkinga og reyndar þjóðarinnar allrar í dag. Þar þurfum við að stíga með ákveðnari hætti inn í málaflokkinn, leita nýrra leiða til þess að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur undanfarin misseri aðallega vegna vaxtastigs og mikillar verðbólgu.

En svo vil ég minnast á börnin og framtíð þeirra. Leik- og grunnskólastarf borgarinnar er eitt okkar allra mikilvægasta verkefni. Við þurfum að styðja við skólastarfið með ákvörðunum okkar, en ég held að það skipti líka miklu máli að tala fallega um það metnaðarfulla starf sem er unnið á hverjum einasta degi.

Við getum verið sanngjörn við börnin og foreldrana í borginni þegar við ræðum um PISA, og við þurfum að sýna kennurum og skólafólki virðingu og þakklæti fyrir þeirra krefjandi starf – því ég held að kennarastarfið hafi aldrei verið meira krefjandi en nú um stundir þegar bakgrunnur nemenda verður sífellt fjölbreyttari.

Munum líka að Reykjavík er dásamleg borg. Hún er höfuðborg Íslands og við getum verið stolt af öllu því góða sem við eigum saman, Reykvíkingar. Okkar dásamlega menningar og íþróttastarfsemi, grænu svæðin, samfélag eldri borgara, lifandi næturlíf, öflug fyrirtæki, háskólasamfélag og blómlegt mannlíf í öllum hverfum.

Og vinnustaðurinn Reykjavík er afar mikilvægur – og þegar við ræðum um starfsmannafjölda og vinnandi hendur í samhengi við rekstur borgainnar, þá er rétt að hafa vakandi auga fyrir aðhaldi – en höfum þá í huga að langflestar eru þessar vinnandi hendur að veita þjónustu. Þær eru að leiða lítil börn á leikskólum, skrifa með tússpenna á töflu í kennslustofu, aðstoða fatlaðan einstakling við daglegt líf, moka snjó eða hirða sorp. Verum ánægð með það sem við erum að gera um leið og við erum metnaðarfull í að gera enn betur.

Beinum sjónum okkar að málefnum dagsins í dag. Það er vissulega afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn – en munum að framtíðin er ekki bara eftir 10-20 eða 30 ár. Framtíðin er líka á morgun.

Forseti, aftur. Ég þakka borgarstjórn fyrir traustið og hlakka til samstarfsins við borgarstjórn.

Ljósmynd: Róbert Reynisson