Categories
Fréttir

„Einfaldlega ekki í boði nú árið 2023“

Deila grein

03/05/2023

„Einfaldlega ekki í boði nú árið 2023“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fjarskiptamál, þá í landsbyggðunum og á fjölmörgum vinsælum ferðamannastöðum umhverfis landið. Sagði hann að enn væru fjölmargir staðir þar sem ekki væri fjarskiptasamband.

„Þar eru m.a. staðir á þjóðvegi eitt sem og vinsælir ferðamannastaðir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga. Slíkt er einfaldlega ekki í boði nú árið 2023,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann að hver mínúta skipti máli, um líf og dauða, þegar verða slys og óhöpp. Eins verði viðbragðsaðilar á „vettvangi að geta verið í sambandi við sitt bakland er kemur að því að kalla til fleiri bjargir og skipuleggja aðgerðir sem oft geta verið stórar og flóknar og kalla á mikla samhæfingu mismunandi viðbragðsaðila.“

„Því er afar mikilvægt nú strax þegar það liggur fyrir að fjölgun ferðamanna hingað til lands er að ná nýjum hæðum í ár að við setjum aukinn kraft í uppbyggingu fjarskiptanets á þeim fjölförnu ferðamannastöðum sem og á þjóðvegi eitt þar sem vitað er að fjöldinn verður mikill nú í sumar sem og á komandi árum,“ sagði Stefán Vagn.

Færeyingar hafa sett upp 5G-kerfið og fara öll fjarskipti viðbragðsaðila í gegnum það. Á Íslandi er verið að koma á tvöföldu kerfi, hefðbundnu farsímakerfi og Tetra-neyðarfjarskiptakerfi sem neyðaraðilar nota.

„Það er mín skoðun að við eigum að setja af stað vinnu við að skoða færeyska módelið og skoða kosti þess og galla að byggja upp eitt kerfi sem væri mun meira þokkandi og nota þá fjármuni sem nýttir eru til uppbyggingar tveggja kerfa í eitt. Með þeirri leið væri hægt að fjölga gríðarlega sendum sem myndu nýtast bæði fyrir neyðaraðila og almenning,“ sagði Stefán Vagn að lokum.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Mig langar hér í störfum þingsins í dag að ræða fjarskiptamál sérstaklega og fjarskipti á landsbyggðinni og á fjölmörgum vinsælum ferðamannastöðum umhverfis landið. Mig langar sérstaklega að vekja athygli á þeirri stöðu að enn eru fjölmargir staðir sem ekki njóta fjarskiptasambands. Þar eru m.a. staðir á þjóðvegi eitt sem og vinsælir ferðamannastaðir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga. Slíkt er einfaldlega ekki í boði nú árið 2023. Þegar slys og óhöpp ríða yfir geta mínútur skipt máli, mínútur sem geta skipt sköpum um líf og dauða viðkomandi einstaklinga sem í því lenda. Það skiptir einnig máli fyrir viðbragðsaðila á vettvangi að geta verið í sambandi við sitt bakland er kemur að því að kalla til fleiri bjargir og skipuleggja aðgerðir sem oft geta verið stórar og flóknar og kalla á mikla samhæfingu mismunandi viðbragðsaðila. Því er afar mikilvægt nú strax þegar það liggur fyrir að fjölgun ferðamanna hingað til lands er að ná nýjum hæðum í ár að við setjum aukinn kraft í uppbyggingu fjarskiptanets á þeim fjölförnu ferðamannastöðum sem og á þjóðvegi eitt þar sem vitað er að fjöldinn verður mikill nú í sumar sem og á komandi árum.

Mig langar að nefna eitt atriði í þessu samhengi sem er 5G-kerfið sem m.a. Færeyingar hafa komið sér upp og gengur út á að öll fjarskipti viðbragðsaðila fari í gegnum 5G-kerfið í síma viðkomandi aðila. Hér erum við að byggja tvöfalt kerfi, hefðbundið farsímakerfi og Tetra-neyðarfjarskiptakerfi sem neyðaraðilar nota með tvöföldum kostnaði. Það er mín skoðun að við eigum að setja af stað vinnu við að skoða færeyska módelið og skoða kosti þess og galla að byggja upp eitt kerfi sem væri mun meira þokkandi og nota þá fjármuni sem nýttir eru til uppbyggingar tveggja kerfa í eitt. Með þeirri leið væri hægt að fjölga gríðarlega sendum sem myndu nýtast bæði fyrir neyðaraðila og almenning.“