Categories
Greinar

Efla þarf stöðu landsbyggðar

Deila grein

02/05/2023

Efla þarf stöðu landsbyggðar

Nýlega birti Byggðastofnun nýjar mannfjöldatölur um íbúafjölda sveitarfélaga og byggðakjarna og kom þar fram að íbúar á Íslandi eru 387.758 en þar af búa 369.048 (95%) í byggðakjörnum og 18.710 (5%) í dreifbýli.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 240.882 íbúar (64% landsmanna) en 135.366 (36%) búa utan höfuðborgarsvæðis. Íbúum landsins fjölgaði um 11.510 (3,1%) á árinu 2022 en mest fjölgun varð á Suðurnesjum (6,7%) og á Suðurlandi (4,2%). Þegar maður rýnir í þessar tölur má sjá að íbúum landsbyggðar fer fækkandi og straumurinn liggur allur á suðvesturhornið, ég tel að það sé mikilvægt að við höldum öllu landinu í byggð og gerum fólki kleift að velja sér búsetu í landinu þar sem það vill búa og stuðla þannig að blómlegri byggð um allt Ísland. Landið er fagurt og frítt og náttúruundrin víðast hvar stórkostleg og það eru í raun forréttindi að búa á landsbyggðinni.

En hvað getum við gert til þess að auka búsetu á landsbyggðinni?

Ég tel að tækifæri landsbyggðarinnar séu í fjórum atriðum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og einnig ætti að færa stofnanir og störf hins opinbera út á land, það er vel hægt með nútímatækni og störfum án staðsetningar.

Hvað sjávarútveg varðar þá þarf að hugsa það kerfi upp á nýtt, kerfið er búið að missa marks og er að eiga sér stað samþjöppun sem stuðlar að því að aflaheimildir dreifast ekki á byggðir landsins, heilu sveitarfélögin og þorpin lamast. Ég tel að best væri að aflaheimildum væri skipt jafnt á milli sveitarfélaga í landinu. Til að tryggja atvinnu í byggðarkjörnunum.

Í landbúnaðinum ríkir alvarleg staða, meðalaldur bænda er 60 ár og fer þeim fækkandi.Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr matvæla- ráðuneytinu hefur orðið um fimm prósenta fækkun sauðfjár á milli ára, úr tæplega 386 þúsund niður í rúmlega 366 þúsund fjár. Sögulega þykir það nú tíðindum sæta að sauðfé er færra á landinu en mannfjöldi. Staða nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi er grafalvarleg. Nú stefnir í að haustið 2024 verði á markaði um 300 tonnum minna af íslensku nautakjöti en síðustu tvö ár.

Það þarf að stórauka framlög til bænda í gegnum búvörusamninga, einnig þarf ríkið að skapa sér nýja stefnu sem snýr að fæðuöryggi í landinu, aðgengi að matvælum sem framleidd eru í landinu fer minnkandi. Setjum landsbyggðina á dagskrá og verndum grunngildi þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. maí 2023.