Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að setja á laggirnar samræmda vefgátt fyrir leyfisveitingar, skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum og tengdar málsmeðferðir ásamt því að einfalda ferli við undirbúning framkvæmda.“
- 209. mál, þingsályktunartillaga – samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda
- vegvisir.is – er ætlað að greiða aðgengi almennings að áætlunum innviðaráðuneytisins.
- Ávinningur rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli – skýrsla VSÓ ráðgjafar fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins
Í greinargerð tillögunnar segir:
„Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 152. löggjafarþingi (567. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Flutningsmenn telja mikilvægt að nýta kosti rafrænnar þjónustu til hins ýtrasta og leggja því fram tillögu þessa um samræmda vefgátt. Rafræn gátt þar sem finna mætti öll gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar myndi einfalda ferli leyfisveitingar til muna. Vefgátt sem þessi myndi spara tíma og tryggja betra aðgengi almennings að gögnum ásamt því að auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Með rafrænni þjónustu geta ólíkar stofnanir þá unnið í sömu gátt en með því er tryggt að gögn flæði auðveldlega milli málsmeðferða. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi má einfalda ferlið frá því sem nú er til muna. Markmið vefgáttarinnar er að á einum stað liggi fyrir gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar. Útgangspunktur vefgáttarinnar er leyfisveitingin, t.d. framkvæmdaleyfi, byggingarleyfi, nýtingarleyfi, rekstrarleyfi eða starfsleyfi.
Málsmeðferð leyfisveitinga og mat á umhverfisáhrifum er í dag flókið ferli sem er bæði tímafrekt og óskilvirkt. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem VSÓ Ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli kemur fram að ferlið á Íslandi er óþarflega flókið. Þar segir jafnframt að skortur sé á tengslum milli málsmeðferða og þörf sé á að skerpa á hlutverki allra þátttakenda í ferlinu. Talsvert er um tvíverknað í kerfinu, sömu gögn eru lögð ítrekað fram og sömu aðilar koma oft að sama máli. Umsagnar- og kynningarferli taka mikinn tíma og þá er ógagnsæi töluvert, aðgengi að gögnum er erfitt sem og að fylgja málum eftir.
Nokkur árangur náðist við bætingu ferla tengdra umhverfismati með setningu nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, en mikilvægt er að ganga enn lengra í samþættingu og einföldun á öllum ferlum framkvæmda. Hér ber að nefna að ákveðið var að koma upp gagna- og samráðsgátt sem Skipulagsstofnun á að starfrækja og á að taka til skipulags, umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Skipulagsgáttin sem unnið er að mun fela í sér veigamikla breytingu varðandi aðgengi að upplýsingum og skilvirkni skipulagsferla. Hún mun líka verða hvati til samræmdra vinnubragða. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að ferli framkvæmda tekur til mun fleiri þátta en þessara og því mikilvægt að samráðsgátt taki til allra ferla frá upphafi til enda. Hér er vísað til þess að margar framkvæmdir eins og auðlindanýting ýmiss konar hefst á ferli rannsókna og gagnasöfnunar sem háð er umsóknum, leyfum, gagnaskilum, upplýsingagjöf o.fl. til opinberra aðila sem koma svo aftur inn í aðra ferla síðar í framkvæmdaferlinu. Því er mikilvægt að gagna- og samráðsgátt sé ekki bundin við Skipulagsstofnun heldur ætti hún að standa utan stofnana ef svo má segja, en allar hlutaðeigandi stofnanir sem koma að hverri og einni framkvæmd, frá upphafi til enda hennar, hafi aðgang að gáttinni. Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að einfalda samráðsferla og útgáfu á skýrslum án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila og án þess að ganga gegn Evróputilskipunum. Þannig gætu leyfisveitendur komið að valkostagreiningu í stað Skipulagsstofnunar með það að markmiði að aðeins raunhæfir valkostir komist áfram í matinu. Þá er þörf á að samræma ferli milli sveitarfélaga vegna innviðaframkvæmda sem ná yfir mörg sveitarfélög. Slíkar framkvæmdir þarf að setja í sérstakt ferli þar sem málsmeðferð er samræmd og samstillt. Líta má til annarra Norðurlanda þar sem dæmi eru um að í sérlögum sé að finna sérákvæði um mats- og skipulagsferli tiltekinna framkvæmda og gæti verið heppilegt að nýta þá leið fyrir stórar innviðaframkvæmdir.
Dæmi um vef sem veitir aðgang að opinberum gögnum er Vegvísir.is sem er nýr gagnvirkur upplýsingavefur innviðaráðuneytis. Vefurinn gefur aðgang að lykilupplýsingum um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Vegvísir markar tímamót og eflir stafræna þjónustu og veitir enn betri aðgang að opinberum gögnum. Á vegvísinum er hægt að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri í yfir 500 verkefnum og stöðu 60 árangursmælikvarða. Á vefnum eru upplýsingar um markmið, aðgerðir, fjármagn, framvindu og árangur í þremur lykiláætlunum ráðuneytisins; samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun.
Skoða mætti hvort vefgáttin ætti heima undir verkefninu Stafrænt Ísland þar sem markmið og áherslur eru að auka samkeppnishæfni, tryggja betri opinbera þjónustu og öruggari innviði ásamt nútímalegra starfsumhverfi. Samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar eiga stafræn samskipti að vera meginsamskiptaleið fólks og fyrirtækja við hið opinbera á Íslandi.
Þingsályktunartillaga þessi er í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann en þar kemur fram að ríkisstjórnin einsetji sér að vera á meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu. Markmið sé að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu við almenning ásamt því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna. Flutningsmenn telja að öll tækifæri til einföldunar séu til staðar og ávinningur af samræmdri vefgátt sé augljós. Því er mikilvægt að stuðla að framþróun í þessum málum í takt við breytta tíma og bætta tækni.“