Categories
Fréttir

Flýtum og hröðum þróun rafrænna samskipta í málefnum barna

Deila grein

14/03/2023

Flýtum og hröðum þróun rafrænna samskipta í málefnum barna

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld vegna barns. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Í greinargerð tillögunnar segir:

„Í 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um að ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á samningi vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Eins er hægt af sama tilefni að úrskurða það foreldri sem barn býr ekki hjá til þess að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda sem þessa. Verður að hafa uppi slíka kröfu við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Á www.syslumenn.is og www.island.is má finna stafrænt eyðublað um beiðni um úrskurð um sérstakt framlag til framfærslu barns sem fylla þarf út í samræmi við skilyrði laganna, þ.e. barn, málsaðila, tilefni og fjárhæð kröfu. Með ákveðnum beiðnum þurfa einnig að fylgja sérstök fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við tilefni hverju sinni, svo sem skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

Flutningsmenn telja að kröfur hins opinbera til borgara um framlagningu fylgiskjala við málsmeðferð í málum barna umtalsverðar og íþyngjandi, sérstaklega á tímum þar sem stafrænar lausnir og rafræn stjórnsýsla fer vaxandi. Af þeim sökum leggja flutningsmenn til að flýta ætti og hraða þróun rafrænna samskipta í málefnum barna og auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna. Sem lið í þeirri vinnu telja flutningsmenn mikilvægt að skoða hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu málsaðila við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Samhliða verði tryggt að sýslumannsembættunum sé gert kleift að afla viðkomandi gagna með stafrænum hætti, eftir atvikum fyrir milligöngu Stafræns Íslands.

Umsóknir um sérstök útgjöld geta verið erfitt og íþyngjandi ferli

Flutningsmenn telja að í samræmi við tækniframfarir ætti umsækjandi samhliða því að leggja fram kröfur um sérstök útgjöld að geta veitt sýslumanni heimild til gagnaöflunar hjá öðrum stjórnvöldum sem málið varðar. Til grundvallar þessum hugmyndum má leggja hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, markmið hins opinbera um betri þjónustu og aukið réttaröryggi.“