Categories
Fréttir

Einungis 13% íbúðagistingu í heimahúsum í Reykjavík hafa tilskilin leyfi til að vera leigðar út til ferðamanna

Deila grein

25/11/2015

Einungis 13% íbúðagistingu í heimahúsum í Reykjavík hafa tilskilin leyfi til að vera leigðar út til ferðamanna


„Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni niðurstöður skýrslu sem voru kynntar nýlega og voru unnar af Háskólanum á Bifröst, um íbúðagistingu í heimahúsum í Reykjavík. Þar kemur í ljós að árið 2009 voru um það bil 200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem tilheyrðu svokölluðu deilihagkerfi þar sem var boðið upp á íbúðagistingu, en árið 2014 voru þær orðnar 1.100, þ.e. 450% aukning á fimm árum.
Það sem er sérstaklega uggvænlegt í þessu samhengi er að einungis 13% af þessum íbúðum eru skráðar og hafa tilskilin leyfi til þess að vera leigðar út til ferðamanna. Nú er þetta málefni sem ég hef rætt við að ég held þrjá ráðherra úr tveimur ráðuneytum og spurt hverju sæti. Víst er það að á vormánuðum síðastliðnum kom fram frumvarp sem náði til hluta af þessu vandamáli en það var ekki nægjanlega vel fram sett og náði því ekki fram að ganga. Það breytir ekki því að við eigum ekki að bíða með að hafa eftirlit með þessari starfsemi þar til fram koma einhver frumvörp sem ég vil segja að lagi lagasetninguna að lagabrotunum. Við eigum ekki að gera það. Við eigum að halda uppi eftirliti og við eigum að draga þá aðila fram sem leigja íbúðir án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.
Þetta er náttúrlega angi af því sem kom fram fyrir nokkrum dögum að skattsvik á Íslandi nema 80 milljörðum á hverju einasta ári. Það eru sem sagt einhver þrælmenni hér úti sem hafa af okkur einn Landspítala á hverju ári í skattsvikum. Þetta er náttúrlega kjöraðstæður til þess að fjárfesta í ríkisskattstjóraembættinu og skattrannsóknarstjóraembættinu sem virðist ekki vera samkvæmt því sem fjárlagafrumvarpið segir núna, en 2. umr. er að byrja, við getum enn þá leiðrétt þetta, vegna þess að ég held að við getum ekki varið peningum betur en til þess að koma í veg fyrir svona starfsemi.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins, 24. nóvember 2015.