Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að tala um að halda áfram. Síðastliðin fjögur og hálft ár hefur miklu verið áorkað þrátt fyrir mikinn öldugang. Ríkisstjórninni hefur tekist að rétta skútuna af og sigla henni í rétta átt þrátt fyrir ólgusjó í formi kórónuveirufaraldursins og nú innrásar Rússa í Úkraínu. En við ætlum að halda áfram. Mörg þjóðþrifamál bíða afgreiðslu okkar og það er okkar á Alþingi að vakta þau, breyta og bæta og að lokum afgreiða þau með besta mögulega hætti. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls.
Við í Framsókn leggjum áherslu á að setja allt landið á dagskrá, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það á enginn að mæta afgangi. Okkur ber að sameinast um það markmið að jafna búsetuskilyrði þvert yfir landið. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar. Í þeirri vinnu eru margir boltar sem við þurfum að grípa. Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða. Má þar nefna verkefnið „Óstaðbundin störf“ þar sem opinber störf eru greind á nýjan máta. Eru þau staðbundin eða er hægt að vinna þau hvar sem er? Þau síðarnefndu eiga að vera skilgreind sem störf án staðsetningar, störf sem hægt er að vinna á Sauðárkróki, Ísafirði, Reykjavík eða í Borgarfirði. Þetta verkefni skiptir landsbyggðina miklu máli og getur breytt sviðsmynd Íslands á jákvæðan máta. Einnig velti ég fyrir mér hvort tími sé kominn á að nýta skattkerfið okkar til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig getum við t.d. hvatt lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins. Með því getum við bætt fjölþætta verðmætasköpun um allt land og fjárfest í fólki. Fordæmin eru til staðar en verkefni sem þetta hefur gefist vel í Noregi þar sem skattkerfið hefur verið nýtt í þágu byggðaþróunar.
Við höfum gert stórátak í samgöngumálum á síðastliðnum árum og höfum háleit markmið um að halda áfram veginn. Það á við bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fullnægjandi samgöngur eru undirstaða samkeppnishæfs samfélags og velmegunar þjóðarinnar. Með góðum samgöngum komumst við langt í jöfnun búsetuskilyrða en samgöngur eru forsenda byggða og innviða verðmætasköpunar. Hér er mikilvægt að ýta ekki á bremsuna. Við ætlum að gefa í, stytta vegalengdir á milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og bæta umferðaröryggi.
Við í Framsókn trúum á fjölgun fjölbreytilegra atvinnutækifæra þvert yfir landið. Þar spila óstaðbundin störf stóra rullu. Á sömu hlið teningsins má nefna nýsköpun, ferðaþjónustu og spennandi tækifæri í kvikmyndagerð.
Á landsbyggðinni eru landbúnaður og sjávarútvegur burðarstoðir í atvinnulífi og grunnstoðir fæðuöryggis Íslands. Mikilvægt er að standa vörð um þessar starfsgreinar, ekki aðeins fyrir þá sem þar vinna heldur einnig í þágu neytenda og fæðuöryggis þjóðarinnar. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og við eigum að horfa þannig á málaflokkinn. Í landbúnaði berjast margir í bökkum við að finna rekstrargrundvöll í núverandi stöðu og ekki hefur stríðið í Úkraínu bætt aðstæður með hækkandi kostnaði á aðföngum. Við megum engan tíma missa við að finna lausnir á þeirri stöðu sem bændur lifa við í dag. Vinna þarf með landbúnaði og sjávarútvegi í sátt í leit að lausnum. Mikilvægi sáttar og samvinnu er óumdeilt og þau sjónarmið verða að vera leiðarljós í nýrri vinnu samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem matvælaráðherra hefur nú skipað.
Verkefnin fram undan eru misjöfn að stærð og burðum. Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum munum við komast í gegnum þau saman. Það er verkefnið.
Góðir landsmenn. Ég óska þingmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars.