Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Deila grein

02/07/2015

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Í gær fóru fram eldhúsdagsumræður, almennar stjórnmálaumræður, á Alþingi. Ræðumenn Framsóknarflokksins voru í fyrstu umferð Þórunn Egilsdóttir, 8. þm. Norðausturkjördæmis, Willum Þór Þórsson, 5. þm. Suðvesturkjördæmis, í annarri og Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þm. Suðurkjördæmis, í þriðju umferð.
ÞórunnÞórunn Egilsdóttir:
„Ágætu Íslendingar. Það er grundvallaratriði að við Íslendingar viljum skapa aðstæður fyrir blómlega byggð um allt land. Til þess þarf að huga að mörgu, bæði umgjörð og innviðum. Samgöngur og aðgangur að þjónustu og netsambandi eru þar okkar mikilvægustu verkefni. Vinna er nú hafin við undirbúning ljósleiðaratengingar allra heimila á landinu og tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að jöfnun húshitunarkostnaðar um allt land. Á næstu þremur árum verður 112 milljörðum varið í samgönguverkefni og strax í ár verður 1.800 milljónum varið til brýnna verkefna í vegagerð.
Þótt samgöngur séu vissulega mikilvægur þáttur í samfélaginu krefst nútíminn þess að fólk geti litið á það sem raunhæfan möguleika að starfa hvar sem er á landinu og verið í góðu fjarskiptasambandi. Það vitum við öll sem búum á landsbyggðinni að jafnrétti verður að nást í þessum málum. Það er mikilvægt fjölskyldunnar vegna, heimilanna, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Innviðir verða að vera traustir svo byggja megi áfram blómlega byggð um land allt, til sjávar og sveita.
Örugg netsamband skýtur stoðum undir það að skólar geti haft meiri samvinnu, fundir geti átt sér stað án kostnaðarsamra ferðalaga, bændur og aðrir atvinnurekendur geti sinnt vinnu sinni og skyldum. Nefna má ótal margt sem hangir á spýtunni, en hér vil ég líka nefna fjarheilbrigðisþjónustu, mál sem var til umfjöllunar á Alþingi í dag.“
VilllumWillum Þór Þórsson:
„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur efnahagslífsins og ríkisstjórnin setti heimilin í forgang. Skuldsett hagkerfi er þunglamalegt og því var lagt upp með að vinna sérstaklega á skuldum heimila og ríkissjóðs en leggja ávallt áherslu á efnahagslegan stöðugleika.
Við skulum nú meta árangurinn á grundvelli markmiða sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

  1. Koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hvers vegna? Ná niður skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtagreiðslur og vinna að stöðugleika.
  2. Ná niður skuldum heimila. Til hvers? Til að auka ráðstöfunargetu þeirra.
  3. Aðgerðaáætlun til að losa um fjármagnshöftin. Til hvers? Freista þess að leysa viðkvæma stöðu þjóðarbúsins og þann greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að okkur.

Hvert er stöðumatið nú þegar við metum þetta hér á hálfnuðu kjörtímabili, í hálfnuðum kappleik, og skoðum hvernig til hefur tekist?

Snúum okkur að lækkun skulda heimilanna. Það var sett í hefðbundið stefnumótunarferli þegar ríkisstjórnin tók hér við stjórnartaumunum. 18 mánuðum síðar hafa 57 þús. heimili fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána og 34 þús. einstaklingar sóttu um séreignarsparnaðarleiðina og geta ýmist nýtt þann sparnað án skattgreiðslu til niðurgreiðslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána eða sparað til íbúðakaupa. Þau heimili sem ekki voru lengur með eftirstöðvar húsnæðislána en áttu rétt á lækkun fengu sérstakan persónuafslátt sem nýtist næstu fjögur árin. Saman virkuðu þessar tvær leiðir, skuldaniðurfellingin og séreignarsparnaðarleiðin, vel á efnahagslífið þar sem þær vega hvor aðra upp. Þegar ráðstöfunargeta heimilanna eykst virkar einkasparnaðurinn sem dempari á móti.
Skuldir heimilanna hafa því lækkað hratt, hraðar en í nágrannalöndum okkar, og eru nú til jafns við það sem þær voru árið 2004. Erum við að uppfylla þessi markmið? Já, kæru landsmenn. Það að ná tökum á ríkisfjármálunum og framkvæma skuldaleiðréttingu þegar á fyrri hluta kjörtímabilsins er sannarlega mælanlegur árangur, árangur í formi þess að uppfylla loforð og tengd markmið.“
Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir:
„Góðir Íslendingar. Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.
Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Sóknin er hafin.
Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Höfum það í huga.
Kæru landsmenn. Þrátt fyrir allt pólitískt karp held ég að við getum öll verið sammála um að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.“