Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir í færslu á Facebook að endurskoða verði vegalög þar sem að allt of margir vegkaflar hafi verið aflagðir þar sem jarðir eða byggingar séu í fullum notum og auðlindanýting enn stunduð. Vegarkaflar mega ekki grotna niður þó engin eigi lögheimili á viðkomandi stöðum.
Alls hafa 262 vegarkaflar verið felldir af vegaskrá á tímabilinu 2014 til 2020. Lengd þeirra er samtals 143 kílómetrar. Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu, um niðurfellingu vega af vegaskrá.
Samanlagt hafa flestir kílómetra þjóðvega verið aflagðir í Norðurþingi. Flestir vegkaflar hafa hins vegar verið aflagðir í Skagafirði.
Vegagerðin fellir vegi af vegaskrá ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði vegalaga til þess að geta talist þjóðvegir. Eftir að vegur fellur af vegaskrá er veghald hans ekki lengur á ábyrgð Vegagerðarinnar.