Categories
Fréttir

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Deila grein

28/06/2019

„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, flutti hátíðarávarp á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, í Vík. Ræða Einars Freys hefur vakið nokkra athygli, enda eftirtektarvert að heyra oddvita lítils sveitarfélags ræða þá miklu uppbyggingu er hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á svæðinu og mikilvægi viðbragða samfélagsins sjálfs með nýja íbúa af ýmsum þjóðernum er starfa við ferðaþjónustuna og hafa þar skipt sköpum. Einar Freyr minnti á að á fyrri hluta síðustu aldar var það og samtakamáttur samfélagsins er hreyfði við málum. Að fengin var vörubifreið til að aka afurðum og aðföngum til og frá Vík. Ánægjan hafi verið almenn með breytinguna nema kannski hjá sem áður höfðu séð um flutningana með hestvögnum. En til staðar verða að vera dugnaðarforkar sem standa fyrir framförum í samfélaginu og að samtakamáttur fólksins geti auðveldað og hvatt til framfara.
„Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar margs konar sess í hugum okkar. Hann er dagur til að gleðjast yfir því sem vel hefur tekist við uppbyggingu samfélagsins, dagur til að minnast þeirra brautryðjenda sem fyrr á tíð skópu framtíð þjóðarinnar með baráttu sinni og dagur til að virkja samtakamátt okkar og setja markmiðin enn hærra en áður til heilla fyrir framtíðarkynslóðir landsins,“ sagði Einar Freyr.
„Það hefur verið skemmtilegt að verða vitni að aðdáun fólks af hinum ýmsu þjóðernum, bæði ferðamanna og þeirra sem dvelja hér langdvölum fyrir íslenskri náttúru og áhuga þeirra á íslenskri menningu og siðum. Það er ástæða til að við minnum okkur sjálf á mikilvægi þess að við hlúum að og berum virðingu fyrir okkar menningararfi. Á sama tíma og við eigum að vera þakklát fyrir það að búa í opnu og frjálslyndu samfélagi sem leggur áherslu á umburðarlyndi er rétt að við munum eftir því að það er ekki sjálfsagður hlutur. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að við komum saman á hverju ári og höldum hátíðlegan þennan dag. Til að minna okkur á það að við erum frjáls til þess að ákveða hvernig samfélag við viljum búa,“ segir Einar Freyr.
„Enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann“
„Ég stend mig margoft að því sjálfur að vera einfaldlega upptekinn við að vera upptekinn. Því vil ég hvetja okkur sem hér eru komin til þess að gefa ykkur stund af og til og fræðast um nærumhverfið og íslenska sögu. Fyrir okkur sem ölum upp börn er mikilvægt að muna að enginn fróðleikur er þannig meðfæddur að ekki þurfi að læra hann. Það er á ábyrgð okkar að komandi kynslóðir búi yfir nægilegri þekkingu á landi og þjóð svo þau geti orðið þjóðræknir Íslendingar.“