Þegar þessi orð eru sett á blað er stillt haustveður í höfuðborginni. Veðurspáin fyrir kjördag ekki eins og best verður á kosið en ég er þó bjartsýnn á að kosningavilji fólks sé það mikill að það mæti á kjörstað til að ákvarða stefnuna inn í framtíðina. Það er mikilvægt að allir nýti þann rétt sem fyrri kynslóðir börðust fyrir: Réttinn til að hafa áhrif.
Við erum stolt af árangrinum
Við höfum á því kjörtímabili sem er að ljúka unnið hörðum höndum í breiðri stjórn að mikilvægum framfaramálum og vil ég sérstaklega nefna byltingu kerfisins í þágu barna, nýjan Menntasjóð námsmanna, 12 mánaða fæðingarorlof, hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og tekjulægri, Loftbrú og þær stórkostlegu framkvæmdir í samgöngum sem landsmenn hafa orðið varir við á ferðum sínum um landið okkar í sumar. Allt þetta höfum við framkvæmt, og meira til, þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar.
Við viljum fjárfesta í fólki og heilbrigði
Þau sem búa á þessu landi hafa sýnt það á síðustu mánuðum og árum að samtakamátturinn og samstaðan er mikil þegar á reynir. Á þessum krafti samvinnunnar viljum við í Framsókn byggja til að bæta samfélagið okkar enn frekar. Við höfum í kosningabaráttunni sett málefni barna og ungmenna sérstaklega á dagskrá. Við viljum að hvert og eitt barn yfir sex ára aldri fái sérstakan 60 þúsund króna vaxtarstyrk til að öll börn geti sprungið út í tómstundum sínum.
Við viljum fjárfesta í heilbrigði þjóðarinnar með áherslu á forvarnir og geðheilbrigði. Eitt af verkefnum næstu ríkisstjórnar er að leiða saman fulltrúa heilbrigðisstétta, sérfræðinga, frjálsra félagasamtaka og þeirra sem nota þjónustu spítalanna til að móta heildstæða og framsýna stefnu þegar kemur að heilbrigði þjóðarinnar. Við viljum auka þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að þau sem geta og vilja geti búið þar sem þeim líður best: heima hjá sér.
Við viljum jafnvægi og fjárfesta í framtíðinni
Við viljum treysta enn undirstöður lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að auka verðmætasköpun og atvinnutækifæri um land allt. Við viljum hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Við viljum auka græna fjárfestingu. Allt miðar þetta að því að skapa forsendur fyrir stöðugt öflugra atvinnulífi sem er forsenda öflugrar velferðar á Íslandi.
Við þekkjum það flest úr okkar daglega lífi að það er mikilvægt að búa við jafnvægi. Við í Framsókn stöndum fyrir umbætur. Við viljum byggja á því sem er gott og laga það sem laga þarf. Við viljum vinna að stefnumálum okkar með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Þessi samvinnuhugsun hefur gert stór umbótamál að veruleika á því kjörtímabili sem er að ljúka og mun gera það áfram ef við fáum til þess stuðning þinn. Stjórnmál snúast nefnilega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnumál heldur líka vinnubrögð – og heilindi.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. september 2021.