Categories
Fréttir Greinar

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Deila grein

25/09/2021

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Þegar þessi orð eru sett á blað er stillt haust­veður í höfuðborg­inni. Veður­spá­in fyr­ir kjör­dag ekki eins og best verður á kosið en ég er þó bjart­sýnn á að kosn­inga­vilji fólks sé það mik­ill að það mæti á kjörstað til að ákv­arða stefn­una inn í framtíðina. Það er mik­il­vægt að all­ir nýti þann rétt sem fyrri kyn­slóðir börðust fyr­ir: Rétt­inn til að hafa áhrif.

Við erum stolt af ár­angr­in­um

Við höf­um á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka unnið hörðum hönd­um í breiðri stjórn að mik­il­væg­um fram­fara­mál­um og vil ég sér­stak­lega nefna bylt­ingu kerf­is­ins í þágu barna, nýj­an Mennta­sjóð náms­manna, 12 mánaða fæðing­ar­or­lof, hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur og tekju­lægri, Loft­brú og þær stór­kost­legu fram­kvæmd­ir í sam­göng­um sem lands­menn hafa orðið var­ir við á ferðum sín­um um landið okk­ar í sum­ar. Allt þetta höf­um við fram­kvæmt, og meira til, þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar.

Við vilj­um fjár­festa í fólki og heil­brigði

Þau sem búa á þessu landi hafa sýnt það á síðustu mánuðum og árum að sam­taka­mátt­ur­inn og samstaðan er mik­il þegar á reyn­ir. Á þess­um krafti sam­vinn­unn­ar vilj­um við í Fram­sókn byggja til að bæta sam­fé­lagið okk­ar enn frek­ar. Við höf­um í kosn­inga­bar­átt­unni sett mál­efni barna og ung­menna sér­stak­lega á dag­skrá. Við vilj­um að hvert og eitt barn yfir sex ára aldri fái sér­stak­an 60 þúsund króna vaxt­ar­styrk til að öll börn geti sprungið út í tóm­stund­um sín­um.

Við vilj­um fjár­festa í heil­brigði þjóðar­inn­ar með áherslu á for­varn­ir og geðheil­brigði. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar. Við vilj­um auka þjón­ustu við eldra fólk með það að mark­miði að þau sem geta og vilja geti búið þar sem þeim líður best: heima hjá sér.

Við vilj­um jafn­vægi og fjár­festa í framtíðinni

Við vilj­um treysta enn und­ir­stöður lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja til að auka verðmæta­sköp­un og at­vinnu­tæki­færi um land allt. Við vilj­um hækka end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. Við vilj­um auka græna fjár­fest­ingu. Allt miðar þetta að því að skapa for­send­ur fyr­ir stöðugt öfl­ugra at­vinnu­lífi sem er for­senda öfl­ugr­ar vel­ferðar á Íslandi.

Við þekkj­um það flest úr okk­ar dag­lega lífi að það er mik­il­vægt að búa við jafn­vægi. Við í Fram­sókn stönd­um fyr­ir um­bæt­ur. Við vilj­um byggja á því sem er gott og laga það sem laga þarf. Við vilj­um vinna að stefnu­mál­um okk­ar með sam­vinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Þessi sam­vinnu­hugs­un hef­ur gert stór um­bóta­mál að veru­leika á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka og mun gera það áfram ef við fáum til þess stuðning þinn. Stjórn­mál snú­ast nefni­lega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnu­mál held­ur líka vinnu­brögð – og heil­indi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höf­und­ur er sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. september 2021.