,,Virðulegi forseti. Þann 17. maí sl. urðu umfangsmiklar rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi á öllu austur- og suðausturlandi á svæðinu frá Vopnafirði suður á Kirkjubæjarklaustur. Rafmagnsleysið varði í tvær til þrjár klukkustundir. Það var rakið til kerleka í álverinu á Grundartanga hinum megin á landinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rafmagnsleysi á Austurlandi má rekja til bilana í öðrum landshlutum. Rafmagnsleysi af þessu tagi hefur ekki orðið á höfuðborgarsvæðinu í meira en 25 ár, enda er dreifingarkerfið þar sterkt sem betur fer. Til allrar lukku þekkir því stærsti hluti landsmanna ekki af eigin reynslu það gífurlega tjón sem fylgir svona truflunum.
Truflunin sem hér um ræðir var að morgni dags, atvinnulífið var í fullum gangi og tjónið er margþætt. Það verður truflun á allri framleiðslu og þjónustu. Þar fyrir utan verður tjón á dýrum búnaði og vinnustundir tapast. Beint tjón er mikið og óbeinn kostnaður ekki síður, m.a. við að koma framleiðsluferlum í gang og tölvukerfum af stað í fjósum, mjólkurstöðvum, bræðslum, frystihúsum, heilbrigðisþjónustu, verslun, ferðaþjónustunni þegar allir eru að tékka út að morgni, í álveri, skólum o.s.frv. Tjónið er ekki aðeins talið í krónum heldur fylgir líka mikil orkusóun og sóun á umhverfisgæðum.
Þessi staða ætti auðvitað ekki að koma upp á árinu 2017 nema þá við afleit veðurskilyrði eða náttúruhamfarir sem við ráðum ekki við. Það er alls ekki svo að þetta geti einungis gerst á Austurlandi, þetta getur gerst víða á landinu. Ég hef því óskað eftir því við hv. umhverfis- og samgöngunefnd að málið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni og þá verði m.a. skoðað hvort einhver hafi það hlutverk að meta það heildartjón sem hlýst af svona truflunum og hvaða vinna (Forseti hringir.) sé í gangi á vegum stjórnvalda til að auka öryggi við dreifingu raforku.”
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017
Categories
Er vinna í gangi hjá stjórnvöldum við að auka öryggi við dreifingu raforku?
26/05/2017
Er vinna í gangi hjá stjórnvöldum við að auka öryggi við dreifingu raforku?