Categories
Fréttir

Þang og þari

Deila grein

26/05/2017

Þang og þari

,,Hæstv. forseti. Komið er út úr atvinnuveganefnd frumvarp um umgengni nytjastofna sjávar, eða þang- og þarafrumvarpið, þó ekki í breiðri sátt, því miður. Þessu frumvarpi var í lok síðasta kjörtímabils ýtt út af borðinu á elleftu stundu. Meginverkefni frumvarpsins er að Hafrannsóknastofnun verði falið að stunda rannsóknir á sjávargróðri og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu, þ.e. öflun þangs og þara verði felld undir eftirlit samkvæmt fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Móttaka þangs til vinnslu frá afmörkuðum svæðum verði háð leyfi og lagt verið veiðigjald á landaðan afla þangs og þara. Að auki verði metinn endurvöxtur eftir nýtingu og hversu mikið sé unnt að taka af þessum tegundum í fjörðum í heild og eftir svæðum þannig að nýtingin sé sjálfbær.
Við kynningu á drögunum að frumvarpinu kom fram sú gagnrýni að ekki væru sett fram nein meginsjónarmið er lytu að vernd líffræðilegrar fjölbreytni sjálfbærrar nýtingar. Áþekk sjónarmið voru sett fram frá öðrum aðila þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að meta áhrif þangsláttar á vistkerfið í heild, m.a. á krabbadýr, botndýr, fugla, fiska, spendýr o.fl. Þá komu fram áhyggjur um hvaða áhrif þangsláttur hefði á vöxt grásleppuseiða og annarra seiðategunda.
Auvitað skal taka undir mikilvægi þess að gæta að áhrifum nýtingar á vistkerfið. Frumvarpið felur ekki í sér neina rýmkun á heimildum einstaklinga og lögaðila til að hefja starfsemi á þessu sviði. Hér er um að ræða rótgróna atvinnustarfsemi til síðustu 40 ára sem fram að þessu hefur verið talin í góðri sátt við náttúruna. Eins verður að skoða þetta frumvarp í ljósi þessi að engar reglur eru um þessa nýtingu í dag. Með frumvarpinu eru gefin skýr skilaboð um að eftirlit þurfi að fara fram með nýtingunni samtímis því að rannsóknir verði efldar og sett hámarksviðmiðun á einstökum svæðum.”
Sigurður Páll Jónsson í störfum þingsins, 26. maí 2017