Categories
Fréttir

Uppsagnir sjúkraflutningamanna við HSN taka gildi í kvöld!

Deila grein

26/05/2017

Uppsagnir sjúkraflutningamanna við HSN taka gildi í kvöld!

,,Hæstv. forseti. Í kvöld taka uppsagnir sjúkraflutningamanna við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi gildi ef samningar takast ekki um bætt kjör þessa aðila sem eru í hlutastörfum. Ef af þessu verður er komin upp mjög alvarleg staða í heilbrigðisþjónustu á starfssvæði heilbrigðisstofnunarinnar. Byggðaráð Blönduósbæjar hefur skorað á velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið að ljúka gerð kjarasamninga við þessa aðila og að samningar verði í samræmi við þá skuldbindingu og ábyrgð sem í starfinu felst. Einnig er skorað á framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að samræma launakjör hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar en sjúkraflutningamenn á Blönduósi telja sig ekki hafa setið við sama borð og aðrir sjúkraflutningamenn innan heilbrigðisstofnunarinnar.
Einnig bendir byggðaráðið á að hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á starfssvæði heilbrigðisstofnunar eru 23 talsins en þeir eru á Blönduósi, Dalvík, Raufarhöfn og Þórshöfn og hluti sjúkraflutningamanna á Húsavík. Jafnframt kemur fram að hluti af kröfum hlutastarfandi sjúkraflutningamanna á Blönduósi er að þeir telja að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningamanna innan starfssvæðis heilbrigðisstofnunarinnar.
Ég tek undir áskorun byggðaráðs Blönduósbæjar og hvet hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem situr hér í salnum núna og hæstv. velferðarráðherra að ganga til verksins og ná viðunandi samningum við þá sjúkraflutningamenn sem hér um ræðir. Það er afar mikilvægt að þessir samningar takist, hér er um að ræða öryggi sjúklinga og þeirra sem búa á starfssvæðinu sem þessar uppsagnir sjúkraflutningamannanna munu ná til ef af verður.
Það er staðreynd að heilbrigðisþjónusta hefur dregist saman víða á landsbyggðinni á undanförnum árum og í mörgum tilfellum þurfa íbúar að reiða sig á þjónustu sjúkraflutningamanna og það er með öllu ólíðandi að staða sem þessi komi upp. Ég ætla því að nota tækifærið hér í störfum þingsins enn og aftur og minna á mikilvægi þess að forgangsmál okkar Framsóknarmanna um heilbrigðisáætlun nái fram að ganga. Við verðum að skilgreina hvaða þjónusta skuli vera í boði á heilbrigðisstofnunum víða um landið og vinna í samræmi við það. Þessi (Forseti hringir.) tillaga bíður eingöngu atkvæðagreiðslu hér í þinginu og öll umræða um málið hefur nú þegar farið fram þannig að ég hvet til þess að málið fari að koma til atkvæðagreiðslu.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017