Categories
Fréttir

Um væntanlegar tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál

Deila grein

26/05/2017

Um væntanlegar tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál

,,Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða fréttir sem komið hafa um að tillögur ráðherranefndar um húsnæðismál séu væntanlegar og verði vonandi kynntar núna á næstu dögum. Í fréttinni kom fram að eitt af því sem væri til skoðunar væri að ganga til samninga við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu varðandi lóðir. Ég fagna því að það standi til, því að fyrir liggur beiðni frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og Kópavogi um að kaupa lóðir til þess að byggja á. Í því sambandi hafa eftirfarandi staðir verið nefndir: Keldur, Keldnaholt, Langhelgisgæslureiturinn og lóðin í kringum Veðurstofu Íslands. Nefnt hefur verið að Kópavogsbær kaupi land á Vatnsendahæð og jafnframt hefur verið nefndur reitur í kringum Sjómannaskólann, Borgarspítalann og svo á Suðurgötu/Hringbraut.
Ég vil líka hvetja ríkisstjórnina til að skoða hvort möguleiki sé á að setjast aftur niður með sveitarfélögum varðandi Vífilsstaðalandið og Skerjafjörðinn til þess að tryggja að þessar lóðir verði raunverulega nýttar til þess að byggja á íbúðarhúsnæði. Að þar verði ekki bara horft til þess að fá sem hæst markaðsverð heldur hafi einstaklingar tækifæri, ekki bara stórir verktakar, heldur líka einstaklingar, til þess að byggja.
Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur talað um sjálfa sig sem jafnréttisríkisstjórn vænti ég þess að fjármálaráðherra og fleiri ætli að mæta á EM í sumar í Hollandi, þar sem kvennalandslið okkar mun eflaust standa sig jafn vel og það hefur gert í undanförnum keppnum. Þar mætti um leið skoða sérstaklega sveitarfélag sem heitir Almere Poort sem hefur einmitt staðið sig mjög vel í því að tryggja fjölbreytni og mikið framboð af lóðum og stuðlað að því að einstaklingar eða litlir verktakar, geti í auknum mæli byggt íbúðarhúsnæði á fjölbreyttan máta. Ég (Forseti hringir.) efast ekki um að jafnréttismálaráðherrann hefði sjálfur áhuga á að mæta þangað, því að mér skilst að hann hafi nú þó nokkra reynslu af því að byggja sjálfur.”
Eygló Harðardóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017