Categories
Greinar

Bjartar vonir veikjast

Deila grein

30/05/2017

Bjartar vonir veikjast

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.

Ferðaþjónustan í uppnámi
Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.

Svarleysi
Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.

Óánægja með verð og tímatöflu
Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.

Ferðin með Baldri
Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.

Planið
Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást.
Ég mæti, ef það verður fært…

Grein eftir Silju Dögg Gunnarsdóttur sem birtist 30. maí 2017 í Eyjafréttum.