Categories
Fréttir

„Fæðuöryggi í heiminum er ógnað, bæði hér heima og erlendis“

Deila grein

29/03/2022

„Fæðuöryggi í heiminum er ógnað, bæði hér heima og erlendis“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær að áhrifa innrásar Rússa í Úkraínu gæti víða. „Fæðuöryggi í heiminum er ógnað, bæði hér heima og erlendis. Miklar áhyggjur eru af keðjuverkandi áhrifum innrásarinnar. Staðan var nú þegar slæm vegna undangengins heimsfaraldurs og nú bætir í bakkafullan lækinn. Íslensk matvælaframleiðsla treystir á mikilvæg innflutt aðföng, svo sem hráefni til fóðurgerðar, áburð, og olíu. Í skýrslunni „Fæðuöryggi á Íslandi“ frá árinu 2021 segir, með leyfi forseta:

„Stríð eru sennilega sú tegund „hamfara“ sem líklegast er að geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri.“

Í sömu skýrslu er farið yfir hvaða afleiðingar fóðurskortur hefur í för með sér hér á landi. Ef allt fer á versta veg vofir yfir framleiðslustöðvun í eggja-, alifugla- og svínarækt ásamt því að draga þarf verulega úr framleiðslu í mjólkuriðnaði og nautgripa- og sauðfjárrækt. Staðan er því grafalvarleg. Uppistaðan í dýrafóðri er korn. Því vil ég spyrja hæstv. matvælaráðherra: Er til staðar viðbragðsáætlun til að bregðast við ástandinu sem nú vofir yfir og hvernig getum við tryggt aðgengi að lykilaðföngum til innlendrar matvælaframleiðslu næsta árið?“