Categories
Fréttir

Fagna skipun Vestfjarðanefndar

Deila grein

08/06/2016

Fagna skipun Vestfjarðanefndar

Jóhanna María - fyrir vef„Hæstv. forseti. Ég vil nýta tækifærið undir liðnum um störf þingsins til að fagna því skrefi sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið eftir tillögu hæstv. forsætisráðherra um að skipa Vestfjarðanefnd sem vinna á að áætlun fyrir svæðið og ekki síður þakka Vestfirðingum fyrir þeirra þátt í málinu. Íbúum Vestfjarða hefur fækkað um 20% frá árinu 1998 um leið og hærri aldurshópar mynda íbúasamsetningu en sá viðsnúningur sem orðið hefur á sunnanverðum Vestfjörðum með nýjum atvinnutækifærum sýnir einmitt að möguleikar eru til staðar, að hægt er að búa til tækifæri fyrir fólk til að búa og starfa á svæðinu.
Í skýrslu um hagvöxt landshluta sem ég hef áður minnst á undir þessum lið kom fram að framleiðsla hafi dregist einna mest saman á Suðurnesjum og á Vestfjörðum, um 11–12%, frá 2009–2013. Í skýrslunni er tekið sérstaklega fram að ástæða þyki til að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum.
Sjávarútvegur er enn þá stærsta atvinnugreinin á Vestfjörðum og virðist samdráttur í greininni vera útskýring á því að framleiðsla hefur dregist saman á Vestfjörðum síðastliðin ár. Því er gott að horfa til nýsköpunartækifæra á svæðinu, þau hafa mörg sprottið upp á síðustu missirum og þannig haldið í fólk sem annars ætti ekki aðra möguleika en að flytja þaðan og þangað sem atvinna er í boði og laun í samræmi við annað. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu hækkuðu laun á Vestfjörðum 10% minna en laun á landinu öllu.
Að ætla að hunsa byggðir sem skipa ysta lag landsins gerir ekkert nema að búa til nýtt ysta lag sem áður en langt um líður verður hið nýja svæði sem þarfnast aðstoðar. Þar sem við hérna inni höfum möguleika til þess að vinna að áföngum sem þeim sem hér um ræðir skulum við fagna þessari ákvörðun.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 1. júní 2016.