Categories
Fréttir Greinar

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Deila grein

21/11/2025

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Fæðingarorlof er í heildina 12 mánuðir, eftir það á leikskólinn að taka við en víðast er lengri bið eftir leikskólaplássi. Ég og mín fjölskylda erum heppin og með frábært bakland, við eigum 14 mánaða gutta og ömmur og afar sjá um drenginn fyrir okkur þegar við þurfum að vinna upp í útgjöld heimilisins. Það eru ekki allir svo heppnir, ég veit að það er fullt af fólki sem hefur ekki öflugt bakland. Foreldrar sem sinna börnum sínum og komast ekki til vinnu á meðan, búnir með sinn rétt til fæðingarorlofs (þar sem fólk er að fá töluvert skert laun) og er því oft annar aðilinn launalaus í heilt ár, ef ekki lengur.

Þegar maður skoðar sveitarfélög út frá barnafjölskyldum er áhugavert að bera Árborg saman við nágrannasveitarfélögin í Árnessýslu. Oft hafa sveitarfélög auglýst sig sem barnvæn samfélög, það er þó gríðarlegur munur á milli sveitarfélaga. Ætli sér einhver að byggja sér heimili eru byggingarréttar- og gatnagerðargjöld í Árborg einhver þau hæstu sem þekkjast á Suðurlandi. Sem dæmi er einbýlishúsalóð í Móstekk með heimild til byggingar rúmlega 290fm hús að kosta um 13,7 m.kr. í gatnagerðargjöld og 10,7 m.kr. í byggingarréttargjald. Samtals rúmar 24 m.kr. áður en fyrsta skóflustunga er tekin. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er einbýlishúsalóð í Brautarholti með heimild til byggingar 250fm hús að kosta um 7 m.kr. í heildina og önnur sveitarfélög Uppsveita virðast vera með svipað verðlag. Í Hveragerði eru lóðir sem heimila um 550 fm byggingu á rúmar 27 m.kr., sem er sambærilegt verð en fyrir tæplega tvöfalt stærri lóð.

Þetta skilar sér inn í fasteignaverð, sem er hærra í Árborg, þá sérstaklega á Selfossi, en annars staðar í sýslunni. Þegar einstaklingur hefur byggt eða fest kaup á húsi þarf hann að greiða fasteignagjöld sem eru einnig hærri í Árborg en í nágrannasveitarfélögum og raunar með þeim hæstu á landinu, eins og sjá má á mælaborði Byggðastofnunar.

Svo bætist við að börn fá leikskólapláss seinna í Árborg en víða annars staðar. Jafnvel er mismunað eftir fæðingarmánuði, barn fætt snemma á árinu er líklegra til að fá pláss við 16 mánaða aldur, en barn fætt seint á árinu gæti þurft að bíða fram yfir 24 mánaða aldur. Sem betur fer á ég von á næsta barni í mars sem er prýðis mánuður ef horft er til inntöku í leikskóla. Mörg sveitarfélög brúa þetta bil með heimgreiðslum til foreldra, sem gæti verið raunhæf lausn fyrir Árborg, lausn sem er ekki svo dýr en getur skipt miklu máli fyrir þá sem þurfa á að halda. Þar að auki eru leikskólagjöldin hærri í Árborg en annars staðar í sýslunni. Ég gæti haldið áfram og nefnt æfingagjöld, gjöld fyrir tómstundir og önnur gjöld sem snerta barnafjölskyldur.

Ég er ekki að segja að allt sé ómögulegt, flest sem tengist barnafjölskyldum er gert af miklum glæsibrag í Árborg. Við höfum glæsilega leik- og grunnskóla, fjölbreytt framboð íþrótta og tómstunda og frístundastarfið er í hæsta gæðaflokki, eitthvað fyrir alla! En við getum alltaf gert betur og ég er að benda á það sem mér og öðrum finnst að mætti betur fara. Barnvænt samfélag snýr bæði að því sem er í boði, aðgengi að þeirri þjónustu og kostnaði.

Fjárhagsáætlunin er í sjálfu sér góð, það er ekki hægt að óska eftir öllu fyrir alla þegar horfa þarf til aðhalds og hagræðingar hjá sveitarfélaginu. Verið er að vinna upp skuldir og bæta rekstur. Sum gjöld lækka hlutfallslega, fasteignagjöld eru að lækka, þ.e.a.s. hlutfallslega, það skilar sér í lækkun eða hækkun eftir því hvar í sveitarfélaginu þú býrð sökum hækkandi fasteignamats. Heilt yfir er um ábyrgan rekstur að ræða og því ber að hrósa kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf. Sérstaklega ber að þakka íbúum, þeir hafa tekið hvað mest á sig fjárhagslega á síðastliðnum árum. Það eru fyrst og fremst skattahækkanir sem eru að skila bættum rekstri ásamt uppsögnum og hagræðingu. Fjárfesta á fyrir 2-3 milljarða á ári sem er vel, mér sýnist hins vegar fjárfestingar næstu ára snúa að því að mæta núverandi þörf. Á sama tíma horfum við á áframhaldandi fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Því velti ég fyrir mér hvort við gætum aftur lent í innviðaskuld, við vitum hvernig það endaði síðast. Þetta eru þó aðeins vangaveltur eftir stutta yfirferð síðastliðna daga.

Þetta er umfjöllun um afmarkaðan hóp íbúa í sveitarfélaginu, en þetta eru allt saman hlutir sem skipta máli. Það þarf sömuleiðis að ræða þátt ríkisins þegar kemur að barnafjölskyldum, þar er ýmislegt sem má bæta, t.d. fæðingarorlofskerfið. Þó engan bilbug á mér sé að finna í barneignum þá kemur mér ekki á óvart að fæðingartíðni sé lág á Íslandi.

Matthías Bjarnason, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 20. nóvember 2025.