Categories
Fréttir

Fjárlagafrumvarpið 2015 á Alþingi: Vinnubrögðin betri og umræðan opnari

Deila grein

19/11/2014

Fjárlagafrumvarpið 2015 á Alþingi: Vinnubrögðin betri og umræðan opnari

sigrunmagnusdottir-vefmyndÞað gerðist í fyrsta sinn við síðustu kosningar til Alþingis að kona á eftirlaunaaldri náði kjöri.  Sú heitir Sigrún Magnúsdóttir og er formaður þingflokks Framsóknarflokksins.   Hún varð sjötug í sumar og fór í fyrsta sinn í framboð til sveitarstjórnar árið 1970, þá á Bíldudal eða fyrir 44 árum.  Hún var lengi formaður borgarráðs í Reykjavík og m.a. fyrsti oddviti R-listans þegar hann bauð fram í borginni.  Þegar síðast var kosið til Alþingis var Sigrún í öðru sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður.   „Það segir sig sjálft að maður þarf að hafa brennandi áhuga á félagsmálum til að nenna þessu svona lengi og hafa drifkraft til að vilja ná fram breytingum og vera ekki bara áhorfandi“, segir Sigrún aðspurð um hvað valdi þessari elju í stjórnmálastarfi.
Það vakti athygli þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í haust að hann nefndi sérstaklega að eitt af stærri verkefnum ríkisvaldsins á næstunni væri að mæta fjölgun eldri borgara á næstu árum.  Þessi fjölgun kallar á að meiri peningum verði varið í heilbrigðiskerfið, bæði í þjónustu og nýbyggingar og þá er einnig horft til þess að reynt verði að nýta velferðartækni og heimaþjónstu til að gera öldruðum kleift að búa heima hjá sér eins lengi og kostur er.  Enn eitt sem rætt er um að þurfi að gerast, er að hækka lífeyristökualdurinn og Sigrún segir að um það hafi m.a. verið rætt innan þingflokksins.  „Við höfum rætt það óformlega og þá einkum í tengslum við vinnu nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins.   Ég lít á það sem okkar okkar helsta verkefni að gæta að því að öryggisnet sé til staðar fyrir alla.  Sem betur fer eru margir eldri borgarar sem hafa það ágætt. En við þurfum að gæta þess að enginn verði útundan, það er okkar hlutverk“ segir Sigrún.  Hún vill líka að fólk átti sig á þeirri breytingu sem orðið hefur á vinnubrögðum í þinginu.  „Hér áður fyrr var fjárlagafrumvarpið lagt fram í október og tekjuhlið þess, svokallaður bandormur, kom ekki fram fyrr en í desember.  Þá voru stjórnarflokkar gjarnan að takast á um tekjuhliðina sín á milli á bak við tjöldin þar til tekjuhliðin var lögð fram.  Nú er þessi umræða fyrir opnum tjöldum og aldrei fyrr hefur fjárlagafrumvarpið ásamt tekjuhlið þess verið lagt svona snemma fram.  Nú getur farið fram almenn umræða í samfélaginu um hvernig eigi t.d. að afla tekna  og hvað séu brýn mál og hvað ekki.  Samtök eins og LEB hafa meira tækifæri til að rýna í frumvarpið og gera við það athugasemdir og koma með ábendingar.  Þetta er af hinu góða.  Sem stjórnarþingmanni finnst manni samt ókostur að hafa ekki lengri tíma en raunin er til að skoða frumvarpið áður en það fer í opinbera umfjöllun.  Núna verðum við að gera það á sama tíma og aðrir.  Nú er unnið á fullu hér í þinginu í fjárlagafrumvarpinu og margt að gerast sem haft getur áhrif á endanlega niðurstöðu, eins og ný hagvaxtarspá, atvinnuleysistölur og fleira.  Ég vona að LEB og aðrir trúi því að við vinnum hér af heilindum og reynum að grannskoða hvaða svigrúm við höfum og í hvað eigi að setja peningana sem til eru.  Við ætlum hins vegar ekki að hvika frá meginmarkmiðinu sem er að ríkissjóður skuli rekinn með afgangi.“
Sigrún segir að nú liggi fyrir tillaga að enn breyttari vinnulagi við fjárlagagerðina.  Nái hún fram að ganga, muni Alþingi strax á vori fari yfir og ákveða  hver verði áherslumálin við næstu fjárlagagerð.
Hún minnir líka á að stjórnvöld hafi gert vel fyrir ári síðan að afturkalla skerðinguna sem sett var á örorku- og ellilífeyri árið 2009 og auka við fjármagn til málefna eldri borgara.  Það hafi verið algjört forgangsatriði nýrrar ríkisstjórnar að ganga í það sem allra fyrst.
Eigum að nýta sérstöðu Íslands
Sigrún hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma, svo sem á sviði ALS/MND-sjúkdómsins.  Í tillögunni segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að hlutast til um að vísindasamfélagið á Íslandi fái nauðsynlega aðstoð við að afla styrkja til að fjármagna rannsóknir á taugasjúkdómum, einnig frá alþjóðasamfélaginu.  „Þetta er mikið áhugamál mitt.  Ég held við Íslendingar gætum nýtt sérstöðu okkar í þessum málum og svona klasi gæti orðið árangursríkur rétt eins og við höfum séð í öðrum greinum eins og varðandi nýtingu jarðvarma og í sjávarútvegi.  Um leið og þjóðin eldist þá verður æ mikilvægara að efla þessar rannsóknir.  Eldri borgurum er að fjölga gríðarlega um heim allan og eitt stærsta vandamálið er heilahrörnun.  Við sjáum að þetta er víða í umræðunni erlendis og nýverið voru nóbelsverðlaun í læknavísindum veitt þeim sem höfðu náð merkum árangri í rannsóknum á heilanum.“  Í greinargerð með tillögu Sigrúnar segi m.a. að  Ísland henti sérstaklega vel sem miðstöð rannsókna á sviði taugavísinda þar sem þjóðin er fámenn, ættartengsl ljósari en hjá flestum öðrum þjóðum og veruleg vísindaþekking er til staðar.
Eldri borgarar mættu vera virkari í stjórnmálum
Sigrún segist hafa gert sína áætlanir um ellina.  Hún skellti sér í háskólanám og nam þjóðfræði og borgarfræði.  Námið hyggst hún nýta sér til ritstarfa einshvers konar, að skrifa sögur eða bækur þegar tími vinnst til.  Hún er samt enn afar virk félagslega eins og hún segir sjálf og gæti ekki hugsað sér annað en að hafa nóg fyrir stafni.  „Við eldri borgarar þurfum ekkert að verða löt þótt árin verði 60 eða 70.  Viðhorfið finnst mér stundum vera þannig að fólk ætlist til að aðrir sinni störfunum sem þarf að vinna og vilji heldur vera þiggjendur.  En það þarf að berjast fyrir öllu í þessu lífi og það er líka gefandi og skemmtilegt.  Þessi fjölmenni og stækkandi hópur þarf að gera sig meira gildandi.  Lífaldur fólks hækkar stöðugt og heilsan er mun betri en áður var.  Þetta veldur því að samfélagið einfaldlega þarfnast krafta eldra fólks í ríkara mæli.“
Viðtalið birtist í Tímariti Landssambands eldri borgara 2014
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.