Categories
Fréttir

Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi

Deila grein

17/05/2024

Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um fjarskipti í dreifbýli á Alþingi. „Fjarskipti skipta miklu máli í nútímasamfélagi. Sem dæmi um fjarskipti má nefna farsímasamband, ljósleiðarasamband og Tetra-samband. Hér í dag vil ég nýta tækifærið og einblína á farsímasambandið og stöðu þess í dreifbýli.“

„Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að ég settist á þing var að óska eftir upplýsingum um fjölda lögheimila þar sem var ekkert eða stopult símasamband og niðurstaðan var sú að um 1% heimila eru algerlega utan símasambands og fjöldi heimila býr við stopult símasamband. Í kjölfarið var gerður samningur milli Neyðarlínunnar og fjarskiptafyrirtækjanna þar sem samið var um uppbyggingu á farsímasendum utan markaðssvæða. Hvers vegna skiptir það máli? Jú, því að í daglegu lífi skipta fjarskiptakerfin okkur meira og meira máli. Á þessum heimilum sem eru utan símasambands búa foreldrar sem eiga börn í skólum og það þarf að vera möguleiki að ná á foreldrana ef eitthvað kemur upp á. Rafræn skilríki eru einnig orðin mun stærri hluti af okkar tæknivædda lífi og má þar t.d. nefna island.is, en ef símasamband er ekki til staðar þá virka rafrænu skilríkin ekki og því þarf fólk að fara að heiman til að nota þau,“ sagði Lilja Rannveig.

Nefndi Lilja Rannveig að farsímasamband sé sérstaklega mikilvægt upp á öryggi. „Reglulega koma fréttir vegna slysa eða atvika þar sem fólk var utan farsímasambands þegar það nauðsynlega þurfti á því að halda. Má þar nefna þegar bílar bila eða þegar það verður slys á þeim vegaköflum þar sem er ekkert símasamband, og það eru allt of margir þannig kaflar víða um land. Við höfum einnig mörg dæmi þess að fólk sé í fjallgöngu, að veiða uppi á heiðum eða í leitum í öllum veðrum á haustin og það villist. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðir hefur ráðuneytið ráðist í til að tryggja það að fólk búi við öruggt fjarskiptasamband á heimilum sínum? Og ef ráðuneytið hefur ekki þegar ráðist í aðgerðir: Hvaða aðgerðir hyggst ráðuneytið ráðast í?“

„Einnig vil ég benda á að það er áætlað að allir stofnvegir verði komnir í farsímasamband fyrir árslok 2026, sem er frábært. En mun hæstv. ráðherra gera sambærilegar kröfur varðandi tengivegi?

Hyggst ráðherra einnig ráðast í aðgerðir með það að markmiði að bæta fjarskiptasamband þar sem samband er til staðar en þarfnast styrkingar? Til að útskýra það frekar þá höfum við mörg dæmi þess að fjarskiptasendar séu með varaafl en það endist mjög takmarkað þannig að ef það er rafmagnslaust í meira en nokkra klukkutíma þá geta heilu dalirnir og sveitirnar verið utan farsímasambands.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra: Hafa algengustu og vinsælustu ferðamannasvæði landsins, þar sem eru t.d. reiðleiðir, gönguleiðir, veiðisvæði, eða bara óbyggðir landsins, verið kortlögð út frá því að tryggja fjarskiptasamband vegna öryggissjónarmiða?“

„Það er mjög mikilvægt fyrir öryggi einstaklinga og fyrir uppbyggingu dreifðari samfélaga að góðir fjarskiptainnviðir séu til staðar á sem flestum stöðum um allt land. Það er ljóst að það þarf að byggja fjarskiptainnviðina upp hraðar hér á landi heldur en við höfum gert hingað til í samræmi við þá hröðu þróun sem hefur verið hvað varðar tækni á síðustu árum. Fjarskipti eru ein af grundvallarstoðunum í nútímasamfélagi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.