„Við erum að færa þjónustuna til, til þess að dreifa álagi innan kerfisins, til þess að nýta allt kerfið, til aðila sem hafa þekkinguna og svigrúmið til að sinna þjónustunni hverju sinni og af viðunandi öryggi og gæðum,“ sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, í sérstakri umræðu á Alþingi um útvistun heilbrigðisþjónustu.
Fyrst vildi Willum Þór ítreka að þingsályktun Alþingis um „Heilbrigðisstefnu til ársins 2030“ væri hryggjarstykkið í allri ákvarðanatöku um forgangsröðun fjármuna, um aðgerðir, um útvistun eða annað í heilbrigðisþjónustu. Eins væri mikilvægt að sameiginlegur skilningur væri á hugtakanotkun í þjóðfélagsumræðunni um skipulag heilbrigðisþjónustu í blönduðu kerfi. Kerfi sem hafi þróast í áratugi, opinberlega fjármögnuð þjónusta og að sátt sé um í þjóðfélaginu. Síðan sé hægt að ræða aðgengið, stefnuna og aðgengi óháð efnahag.
Útvistun aðgerða getur verið innan opinbera kerfisins og styður við markmið að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað
„Útvistun getur verið beint á milli stofnana án nokkurrar aðkomu annarra eða yfirvalda ef því er að skipta. Hún getur líka verið frá opinberum aðila til einkaaðila út frá rekstrarformi, ef við erum að skilgreina það. En fyrst og síðast erum við alltaf að vinna eftir þessari stefnu: Við erum að auka aðgengi. Getur falist í því aukin skilvirkni? Já,“ sagði Willum Þór
Hver eru áform varðandi einkavæðingu hjúkrunarheimila?
„Það eru engin áform um einkavæðingu hjúkrunarheimila. Mikill meirihluti hjúkrunarrýma er rekinn af sjálfseignarstofnunum og alls ekki verið að drepa því á dreif, það er staðreynd,“ sagði Willum Þór og hélt svo áfram, „hafa orðið tafir á uppbyggingu hjúkrunarheimila? Já, og nýjustu viðbrögðin við því eru að auka skilvirknina og að mæta þessari þróun sem raunverulega hefur verið“.
Sveitarfélögin hafa dregið sig út úr þjónustu hjúkrunarheimila. Hafa því verið gerð þjónustukaup í gegnum Sjúkratryggingar af Sjómannadagsráði, af Grund, af Eir, af Heilsuvernd og af Sóltúni. Eins hafa heilbrigðisstofnanir fyrir austan, fyrir norðan og fyrir vestan meira og minna tekið til sín hjúkrunarheimilis þjónustu að öllu leyti.
„Það sem ég og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra erum raunverulega að gera er að skerpa á hlutverki og ábyrgð með breyttu fyrirkomulagi í þeim tilgangi að hraða uppbyggingunni,“ sagði Willum Þór.
Mun aukin skilvirkni fást með útvistun aðgerða?
„Við settum 700 milljónir á síðasta ári í það að leggja áherslu á lýðheilsutengdar aðgerðir eins og liðskipti. Hvað hefur gerst? Við erum búin að auka aðgerðir um 60%. Það þýðir aukið aðgengi, fleiri komast að og það er jafnræði. Aðgerðum í útlöndum hefur fækkað. Það er sparnaður. Það heitir skilvirkni og tölurnar liggja fyrir,“ sagði Willum Þór.
Hvaða gögn liggja að baki ákvörðunum um útvistun aðgerða í heilbrigðiskerfinu?
Það er verið að nýta kerfið og þetta er leið til þess. „Af hverju erum við að semja við sérgreinalækna? Það er til þess að það sé ekki hægt, eins og lögin eru í dag, að rukka aukalega. Það er til heil skýrsla frá Öryrkjabandalaginu um að tekjulægstu hóparnir hafi átt orðið í vandræðum með að borga aukareikninga. Annað hvort var þá að breyta stefnunni eða semja. Og það var samið. Reikningurinn fyrir þessa aukareikninga er 1,9 milljarðar, áætlaðir. Það er í samhengi við 350 milljarða. Ef þetta er einkavæðing eða markaðsvæðing er einhverju öfugt farið,“ sagði Willum Þór.
Fólk í fyrirrúmi
„Við höfum aukið afköst um 60%. Þeim hefur fækkað sem hafa farið erlendis, sem nýta það tækifæri. Markmiðið hlýtur að vera að nýta alla þekkinguna sem er hérlendis til að gera þessar aðgerðir. Við eigum hana til og eigum að geta það,“ sagði Willum Þór að lokum.