Categories
Fréttir Greinar

11,5 milljarðar komnir í loftið

Deila grein

29/01/2024

11,5 milljarðar komnir í loftið

Fyrr í mánuðinum fór í loftið við frá­bæra dóma fjórða serí­an af sjón­varpsþátt­un­um True Detecti­ve sem fram­leidd­ir eru af am­er­ísku sjón­varps­stöðinni HBO max, en stöðin er ein af dótt­ur­fyr­ir­tækj­um einn­ar stærstu afþrey­ing­ar­sam­steypu heims, Warner Bros Disco­very. Þar með op­in­beraðist ár­ang­ur þrot­lausr­ar vinnu hér á landi en þáttaröðin, með Jodie Foster í broddi fylk­ing­ar, var að lang­stærst­um hluta fram­leidd hér á landi af ís­lenska fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­inu True North. Aðstand­end­ur verk­efn­is­ins hafa hlaðið Ísland og ís­lenska kvik­mynda­gerð miklu lofi í banda­rísk­um fjöl­miðlum.

Um er að ræða stærsta kvik­mynda- og sjón­varps­verk­efni sem ráðist hef­ur verið í hér á landi og um hreina er­lenda fjár­fest­ingu að ræða, en heild­ar­kostnaður verk­efn­is­ins nam um 11,5 millj­örðum króna. Að meðaltali voru um 600 manns að vinna að verk­efn­inu á degi hverj­um en á stærstu dög­un­um vor­um um 1.000 manns á setti. Í heild­ina fengu um 1.200 manns greitt fyr­ir aðkomu sína að verk­efn­inu og átti verk­efnið í viðskipt­um við 2.000 fyr­ir­tæki og ein­stak­linga á töku­tím­an­um, en töku­tíma­bilið varði í rúm­lega hálft ár og fóru tök­ur fram í kvik­mynda­ver­um í Reykja­vík ásamt úti­tök­um á Ak­ur­eyri, Kefla­vík, Vog­un­um, Dal­vík, við Stífl­is­dals­vatn og í Bláfjöll­um.

Stærst­ur hluti þeirra sem störfuðu beint við verk­efnið voru Íslend­ing­ar í hinum ýmsu störf­um. Má þarf nefna kvik­mynda­töku- og tækni­fólk ým­is­kon­ar, fram­leiðslu­stjóra, förðunar-, bún­inga- og leik­mynd­ar­sér­fræðinga, auka­leik­ara og svo lengi mætti áfram telja.

Það er mik­il viður­kenn­ing fyr­ir Ísland sem tökustað að fá verk­efni af þess­ari stærðargráðu hingað og er það ber­sýni­leg staðfest­ing þess að stefna stjórn­valda í mál­efn­um skap­andi greina virk­ar, en til að mynda hef­ur kvik­mynda­stefnu frá ár­inu 2020 verið hrint skipu­lega í fram­kvæmd með fjöl­mörg­um aðgerðum. Einni slíkri var hrint í fram­kvæmt árið 2022 sem fólst í að hlut­fall end­ur­greiðslu af fram­leiðslu­kostnaði í kvik­mynda­gerð sem til fell­ur hér á landi var hækkað úr 25% í 35% fyr­ir verk­efni sem upp­fylla ákveðin skil­yrði hvað varðar stærð, fjölda töku­daga og fjölda starfs­fólks. Árang­ur þeirra breyt­inga fór strax að skila sér líkt og of­an­greint verk­efni sann­ar.

Það er hins veg­ar mik­il­vægt að hafa hug­fast að grunn­ur­inn að hinum mikla ár­angri í kvik­mynda­gerð hér á landi er allt hið magnaða inn­lenda kvik­mynda­gerðarfólk sem hef­ur rutt braut­ina í gegn­um ára­tug­ina. Án þess væri Ísland lít­il­fjör­leg­ur tökustaður í dag, en hróður ís­lensks kvik­mynda­gerðarfólks fer víða enda er það þekkt fyr­ir framúrsk­ar­andi fag­mennsku, vinnu­semi, græn­ar áhersl­ur og lausnamiðað hug­ar­far. Ég mun halda áfram að beita mér af full­um krafti til að efla kvik­myndaiðnaðinn hér á landi í góðu sam­starfi við grein­ina. Það er til mik­ils að vinna að auka verðmæta­sköp­un í hinum skap­andi grein­um enn frek­ar og ég er þess full­viss að framtíðin sé björt á þeim vett­vangi. Ég óska öll­um þeim sem komu að verk­efn­inu True Detecti­ve til ham­ingju með áfang­ann og hvet ykk­ur áfram til góðra verka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.