Categories
Fréttir Greinar

Orkumál í stóra samhenginu

Deila grein

29/01/2024

Orkumál í stóra samhenginu

Síðastliðinn þriðju­dag voru orku­mál lands­ins sér­stak­lega rædd á Alþingi. Umræðan fór fram fyr­ir til­stilli und­ir­ritaðrar og var um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra til andsvara. Ásamt okk­ur mættu full­trú­ar allra þing­flokka til að út­skýra af­stöðu sína varðandi orkuþörf lands­ins og orku­ör­yggi okk­ar til framtíðar. Umræðan var líf­leg og áhuga­verð og kom væg­ast sagt á óvart á köfl­um.

Er orku­skort­ur á Íslandi?

Þrátt fyr­ir að sér­fræðing­ar inn­an orkuiðnaðar­ins hafi lengi bent á aukna orkuþörf þjóðar­inn­ar og yf­ir­vof­andi orku­skort hér á landi þá eru greini­lega aðilar sem enn eru ekki sann­færðir um vand­ann.

Eft­ir­spurn eft­ir raf­orku hér á landi er orðin meiri en fram­boð og sam­fé­lagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyr­ir­tæki eða heim­ili. Æ oft­ar ger­ist það að fyr­ir­tæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda dag­legri starf­semi sinni gang­andi í sam­ræmi við samn­inga vegna ótryggr­ar orku, sem mik­il­væg­ir eru til að full­nýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyr­ir okk­ur öll ásamt þeim nei­kvæðu um­hverf­isáhrif­um sem slík brennsla hef­ur í för með sér.

Heim­il­in í for­gangi

Í nú­ver­andi ástandi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það í al­gjör­an for­gang að yf­ir­vof­andi orku­skort­ur hafi lít­il sem eng­in áhrif á heim­ili fólks né lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki.

Þingið hef­ur nú til meðferðar frum­varp um raf­orku­ör­yggi, en þar kem­ur fram að not­end­ur sem kaupa raf­orku til heim­il­is­nota, mik­il­væg­ir sam­fé­lags­innviðir og fyr­ir­tæki með færri en 50 starfs­menn og ár­sveltu eða efna­hags­reikn­ing sem er ekki yfir 1,5 millj­örðum kr. og hafa ekki samið sér­stak­lega um skerðan­lega notk­un skuli njóta for­gangs ef skerðing á raf­orku á sér stað. Miðað við ræðurn­ar í fram­an­greind­um umræðum býst ég ekki við öðru en að all­ir þing­menn, þvert á flokka, ýti á græna takk­ann þegar frum­varpið fer í at­kvæðagreiðslu.

Stöðnun at­vinnu­lífs­ins vegna skerðinga

Þó svo að heim­ili og lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki verði að mestu óhult ef til skömmt­un­ar á raf­orku kem­ur þá þurf­um við að horfa á stóru mynd­ina. Ef við öfl­um ekki meiri raf­orku og dreif­um henni á sem best­an máta þá mun það hafa tals­verð áhrif á at­vinnu­líf hér á landi. Stór­not­end­ur raf­orkunn­ar okk­ar bera þung­ann af skerðing­um á raf­orku. Um er að ræða þjóðhags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem skila sam­fé­lag­inu tals­verðum út­flutn­ings­tekj­um og það kom nokkuð á óvart að tals­menn sumra flokka á Alþingi hefðu tak­markaðar áhyggj­ur af því að slík­ar skerðing­ar eigi sér stað í rekstri þeirra, með til­heyr­andi áhrif­um á vöru þeirra og þjón­ustu.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft þá verðum við að ákveða í hvernig sam­fé­lagi við vilj­um búa. Vilj­um við tak­marka orku fyr­ir stór­not­end­ur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raf­orku­kosti í sín­um rekstri eða vilj­um við tryggja að stór og stönd­ug fyr­ir­tæki hafi nægj­an­lega orku fyr­ir hendi til að skapa út­flutn­ings­tekj­ur, sem skila sér til fram­kvæmda á mik­il­væg­um innviðum og í vel­ferð sam­fé­lags­ins? Hér er átt við öfl­ug fyr­ir­tæki sem flokk­ast sem stór­not­end­ur og bjóða upp á hald­bær­ar vör­ur og/​eða þjón­ustu. Hér þurf­um við að gera grein­ar­mun á milli slíkra fyr­ir­tækja og annarra stór­not­enda á borð við raf­mynta­gröft, en ekki setja alla stór­not­end­ur und­ir sama hatt.

Auk­in öfl­un í þágu um­hverf­is­sjón­ar­miða

Í umræðunni um orku­mál virða sum­ir áhyggj­ur um orku­skort að vett­ugi. Al­mennt er sagt að við eig­um nóg af hreinni raf­orku í dag og að auk­in eft­ir­spurn þýði ekki endi­lega að orku­skort­ur sé yf­ir­vof­andi.

Sú út­breidda skoðun að við eig­um nóg stenst ekki þegar um 40% af þeirri orku sem við not­um í dag til verðmæta­sköp­un­ar kem­ur í formi inn­fluttr­ar olíu líkt og Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðar­ins, seg­ir í viðtali við Morg­un­blaðið 24. janú­ar sl. Það get­ur varla tal­ist já­kvætt með til­heyr­andi um­hverf­isáhrif og mark­mið Íslands í loft­lags­mál­um til hliðsjón­ar. Það er um­hugs­un­ar­vert að höfuðáhersla er lögð á að fólk fari frek­ar á raf­magns­bíl­um og breyti dag­leg­um neyslu­venj­um þegar skerðing­ar verða fleiri og óhrein­ir orku­gjaf­ar eru notaðir í tals­verðu magni.

Niðurstaðan hlýt­ur að vera sú að auk­in virkj­un og fram­leiðsla á raf­orku ásamt betra dreifi­kerfi þjóni hags­mun­um okk­ar allra í stóra sam­heng­inu.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.