Categories
Fréttir

Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna?

Deila grein

30/01/2024

Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttöku þeirra á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Félags- og vinnumarkaðsráðherra var til andsvara.

„Innflytjendur eru nú um 18% af heildarfjölda landsmanna og í mörgum samfélögum eru innflytjendur yfir 20% íbúa, það á t.d. við í Fjarðabyggð þar sem ég bý, og það eru dæmi um mun hærra hlutfall, hæst yfir 60% í Mýrdalshreppi og kringum 30% í nokkrum sveitarfélögum eins og Hornafirði, Tálknafirði og Reykjanesbæ,“ sagði Líneik Anna.

Innflytjendur voru um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi á seinni hluta síðasta árs og er atvinnuþátttaka þeirra orðin mun meiri en í öðrum norrænum ríkjum. Þegar almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði, er atvinnuþátttaka innflytjenda er þó enn meiri eða tæplega 87%.

„Innflytjendur sinna mikilvægum störfum, t.d. í fiskvinnslu eða iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Líneik Anna.

„Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar og þær áherslur endurspeglast í stjórnarsáttmála, m.a. þar sem segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“

Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna og hvernig fer mat á menntuninni fram? Ég spyr líka hvort og hvernig unnið er að því að tryggja aðgengi að mati á menntun. Gildir það sama t.d. um háskólamenntaða og iðnmenntaða?“

„Við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í“

Félags- og vinnumarkaðsráðherra benti á að OECD hafi verið fengið til að aðstoða við gerð fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda. Í þeirra vinnu hefur komið fram að um 42% innflytjenda hér á landi inni af höndum störf sem krefjist ekki sérstakrar menntunar, þó svo að hlutfall innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. OECD segir einnig að menntunarstig innlendra og innflytjenda sé áþekkt og að ekki sé marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma utan EES og innan EES.

„Mat á námi innflytjenda heyrir má segja undir þrjú ráðuneyti, þ.e. heilbrigðisráðuneytið hvað varðar starfsleyfi fyrir heilbrigðisstéttir; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi lögvarin starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Afleiðingarnar á sviði inngildingar koma þá að ráðuneytinu hjá mér og Vinnumálastofnun sem í sumum tilfellum getur í rauninni ekki fundið störf við hæfi fyrir fólk, þegar um er að ræða aðstoð við það, þar sem starfsréttindin eru ekki viðurkennd. Eitt af vandamálunum er það að við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í til að fá menntun sína metna. Þess vegna eru leiðirnar ólíkar milli greina, hvernig staðið er að því að meta þetta, óháð því undir hvaða ráðuneyti þau mál síðan að endingu heyra,“ sagði félags- og vinnumarkaðsráðherra.