Categories
Fréttir

Þjóðinni verði treyst hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“

Deila grein

31/01/2024

Þjóðinni verði treyst hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnaskrá um kjörgengi til forseta Íslands. Hún leggur til að samþykkt verði að fella á brott 35 ára aldurstakmarkið um kjörgengi til forseta. Vill hún þannig undirstrika að aldur eigi ekki vera hæfniviðmið og eins eigi það ekki að liggja til grundvallar hvort einstaklingur hafi öðlast ákveðna reynslu eða hæfni.

Frumvarpsgreinin hljóða svo:

4. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:
Kjörgengur til forseta er hver maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu
.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.: „Krafist er mun hærri lágmarksaldurs frambjóðenda til embættis forseta lýðveldisins en almennt er gert í íslenskri löggjöf. Í athugasemdum við stjórnarskrárfrumvarpið frá árinu 1944 kemur fram að „ekki þykir hlýða, að yngri maður en 35 ára geti orðið forseti“ þar sem forseti þarf að búa yfir, auk margs annars, „lipurð og mannþekkingu, sem ekki fæst nema með nokkrum aldri“. Vegna þessarar afstöðu löggjafans á þeim tíma var ákveðið að festa í stjórnarskrána það kjörgengisskilyrði að frambjóðandi til forseta skyldi hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Á þessu ári verða liðin 80 ár frá staðfestingu stjórnarskrárinnar, og þar með umræddu ákvæði, og tíðarandinn annar. Það þykir sjálfsagt að forseti lýðveldisins skuli hafa öðlast ákveðna lífsreynslu og mannþekkingu, sem vissulega öðlast almennt með aldrinum. Hins vegar hlýtur að teljast álitamál hvert aldurstakmarkið á að vera hvað þau atriði varðar.“

Síðan segir: „Almennt er talið að einstaklingur þurfi að hafa sýnt kjósendum fram á hæfni sína til að ná kjöri til embættis. Það á við hvort sem um er að ræða forsetakosningar, alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar. Í lýðræðissamfélagi fær þjóðin traust til að velja sér fulltrúa í embætti á vegum ríkisins. Ekki er gerð krafa um ákveðna menntun, ákveðna hæfileika eða ákveðna kunnáttu í slíkri kosningu, enda er gert ráð fyrir að kjósendur kynni sér frambjóðendur og taki upplýsta ákvörðun er þeir greiða atkvæði hverju sinni. Hins vegar virðist svo ekki vera í forsetakosningum þar sem sett er skilyrði um að forseti megi ekki vera yngri en 35 ára. Þó er ekki gerð sérstök krafa í lögum um að forsætisráðherra eða forseti Alþingis séu eldri en 18 ára, en þeir fara með forsetavald, ásamt forseta Hæstaréttar, í ákveðnum tilfellum, sbr. 8. gr. stjórnarskrárinnar.“

„Það er mat flutningsmanna að afnema eigi skilyrði um að forsetaefni skuli hafa náð 35 ára aldri á kjördag. Fjölmargir einstaklingar undir 35 ára aldri gætu hæglega staðist kröfur þjóðarinnar hvað embættið varðar og sinnt því vel. Rétt eins og þjóðinni er treyst til að ákveða hæfi frambjóðenda á grundvelli menntunar og fyrri starfa, þá eigi henni einnig að vera treystandi til að taka ákvörðun um hvort frambjóðandi búi yfir „lipurð og mannþekkingu“, sérstaklega í ljósi þess að upplýsingaflæði innan samfélagsins hefur batnað til muna frá samþykkt stjórnarskrárinnar, t.d. með tilkomu alnetsins. Fólk getur auðveldlega tekið upplýstar ákvarðanir og frambjóðendur hafa aukin tækifæri til að koma hæfi sínu, eiginleikum og reynslu til skila. Það að einstaklingur þurfi að vera orðinn 35 ára til að geta orðið forseti lýðveldisins er tímaskekkja og sýnir ákveðið vantraust gagnvart kjósendum til að velja hæfasta einstaklinginn í embættið.“