Categories
Fréttir

Forvarnir gegn einelti og ofbeldi

Deila grein

13/12/2022

Forvarnir gegn einelti og ofbeldi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Barnaheill. Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi í þágu farsældar barna.

Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einkum er ætlað að styðja við verkefnin Verndarar barna og Vináttu – forvarnarverkefni gegn einelti.

Verndarar barna snýr að vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum til verndar barna gegn ofbeldi. Verkefnið var fyrst sett á laggirnar árið 2006 á vegum samtakanna Blátt áfram, sem sameinaði krafta sína við Barnaheill árið 2019.

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.–4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vináttu er ætlað að þjálfa félagsfærni og samskipti og stuðla að góðum skólabrag.

Í lok nóvember var gengið frá samningi til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun, um stuðning við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. desember 2022.