Categories
Greinar

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.

Aðdragandinn

Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Öryggismál

Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið. 

Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.