Categories
Fréttir

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Deila grein

14/12/2022

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu fyrir Alþingi á næstu dögum.

Stefnan byggir á vinnu verkefnahóps með fulltrúum frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, myndlistarráði, Listasafni Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listskreytingasjóði, i8 Gallerí og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, en hópnum var falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030. 

„Það eru miklar gleðifréttir að geta lagt fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu. Stefnan kallar á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem stuðlar að kraftmikilli myndlistarmenningu. Öflug myndlistarmenning getur þannig aukið þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bætt lífsgæði og ánægju,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Í stefnunni eru lögð til markviss skref til þess að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. 

Í stefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 og meginmarkmið hennar sem eru fjögur talsins:

1. Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
2. Stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt.
3. Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
4. Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika. 

Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. 

Aðgerðirnar eru 16 talsins, en þess má geta að gert hefur verið ráð fyrir fjármagni til Myndlistarmiðstöðvar að upphæð 20 m.kr. til eins árs til stofnunar miðstöðvarinnar, vitundarvakningar, kynningarefnis, vefsíðugerðar og fleira. Auk þess eru aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru fyrir árið 2023 þegar fjármagnaðar. 

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Mynd: Stjórnarráðið