Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra, samþykkti nýlega tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að hækka áætluð framlög sjóðsins vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2023 um 5 ma.kr. og nema áætluð framlög sjóðsins vegna reksturs málaflokksins nú 27,4 ma.kr.
Hækkunina má rekja til samkomulag sem fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra undirrituðu í desember við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélag við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér varanlega tilfærslu fjármuna sem nema 5 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga.
Framlögin eru greidd mánaðarlega og fer fyrsta greiðsla ársins 2023 fram nú í lok febrúar. Framlögin taka mið af innkomnum tekjum sjóðsins af 1,21% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar og tekna sjóðsins af 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkisins.
Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í nóvember 2023.
Heimild: stjr.is