Categories
Greinar

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Deila grein

18/02/2023

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Eitt af því skemmti­lega við að starfa í stjórn­mál­um er að sjá afrakst­ur verka sinna fyr­ir sam­fé­lagið. Sú veg­ferð get­ur tekið á sig ýms­ar mynd­ir og verið mislöng. Síðastliðin vika var viðburðarík í þessu sam­hengi, en mik­il­væg­ir áfang­ar náðust fyr­ir mál­efni tón­list­ar, mynd­list­ar, hönn­un­ar og arki­tekt­úrs.

Á Alþingi mælti ég fyr­ir frum­varpi að tón­list­ar­lög­um og þings­álykt­un­ar­til­lögu um tón­list­ar­stefnu fyr­ir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heild­ar­lög um tónlist í land­inu og fyrstu op­in­beru stefnu í mál­efn­um tón­list­ar á Íslandi. Ný heild­ar­lög um tónlist og tón­list­ar­stefna marka ákveðin vatna­skil fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu en fram und­an eru nokkuð rót­tæk­ar breyt­ing­ar til þess að efla stuðnings­kerfi tón­list­ar á Íslandi og styðja við ís­lenskt tón­listar­fólk í verk­um sín­um, bæði hér­lend­is og er­lend­is. Þannig verður ný tón­list­armiðstöð sett á lagg­irn­ar en henni er ætlað að verða horn­steinn ís­lensks tón­list­ar­lífs og sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þá mun nýr tón­list­ar­sjóður sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar í einn sam­eig­in­leg­an sjóð með það að mark­miði að ein­falda styrkjaum­hverfi ís­lensks tón­list­ar­lífs og auka skil­virkni þess.

Í þing­inu mælti ég einnig fyr­ir nýrri mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 sem bygg­ist á fjór­um meg­in­mark­miðum sem hvert og eitt stuðli að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo að framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika. Meg­in­mark­miðin eru að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess. Í stefn­unni er einnig að finna fjölþætt­ar aðgerðir til þess að ná sett­um mark­miðum.

Síðastliðinn föstu­dag kynnti ég svo nýja stefnu í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs til árs­ins 2030. Leiðir að meg­in­mark­miðum stefn­unn­ar tengj­ast fimm áherslu­sviðum sem nán­ar er fjallað um í stefnu­skjal­inu; verðmæta­sköp­un, mennt­un fram­sæk­inna kyn­slóða, hag­nýt­ingu hönn­un­ar sem breyt­inga­afls, sjálf­bærri innviðaupp­bygg­ingu og kynn­ingu á ís­lenskri hönn­un og arki­tekt­úr.

Að baki öllu fyrr­nefndu ligg­ur mik­il og góð sam­vinna við fjölda sam­starfsaðila, og hag- og fagaðila í viðkom­andi grein­um. Í eyr­um sumra kunna orð eins og stefna og stefnu­mót­un að hljóma eins og froðukennd­ir fras­ar, en staðreynd­in er engu að síður sú að hér er kom­inn sam­eig­in­leg­ur leiðar­vís­ir til framtíðar, sem all­ir eru sam­mála um og nú er hægt að hrinda í fram­kvæmd. Fjár­mun­ir hafa nú þegar verið tryggðir til þess að hefja þá vinnu. Stjórn­völd­um er al­vara með því að sækja fram fyr­ir skap­andi grein­ar. Mikið af und­ir­bún­ings­vinn­unni er nú að baki, við tek­ur að bretta upp erm­ar og halda áfram að fram­kvæma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.