Categories
Fréttir Greinar

Nú er komið að okkur

Deila grein

17/02/2023

Nú er komið að okkur

Nýlega birtust fréttir þess efnis að matvælaráðherra hafi ákveðið að sleppa framlagningu frumvarps um sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði og tekið það úr málaskrá ráðuneytisins. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem hagræðing af slíkri sameiningu í þágu matvælaframleiðenda og neytenda hefur fengið mikla umfjöllun, bæði á Alþingi og á vettvangi bænda. Þegar við tölum um þessa hagræðingu þá erum við að tala um milljarða. Upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir bændur og framtíð íslensks kjötiðnaðar.

Bóndinn tryggir fæðu

Skilaboð ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja fæðu- og matvælaöryggi hér á landi hefur verið skýrt. Mikilvægt er að við getum reitt okkur á íslenska matvælaframleiðslu, og við sjáum á nýliðnum atburðum erlendis að aðstæður heillar þjóðar geta breyst á augnabliki. Að vera sjálfum okkur nóg með nauðsynjar á borð við mat getur skipt sköpum.

Þeir sem tryggja matvæla- og fæðuöryggi landsins eru bændur. Innlendir matvælaframleiðendur, sem hafa tryggt okkur gæða afurð í áranna raðir þrátt fyrir marga erfiða tíma. Í dag, á tímum mikillar samkeppni við erlendar stórverksmiðjur, eykst mikilvægi þess að innlendir framleiðendur, sem uppfylla allar þá kröfur sem við gerum til okkar fæðu hvað varðar öryggi og gæði, hafi ríkisstjórnina með þeim í liði.

Milljarða króna hagræðing

Framsókn hefur lengi talað fyrir að sameining afurðastöðva í kjötiðnaði verði gerð heimil hér á landi. Tölfræðin og framtíðarspár liggja fyrir. Sú hagræðing getur komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs. Í núverandi stöðu geta bændur ekki selt sína vöru á sama verði og innfluttar vörur eru keyptar á. Aðstöðumunurinn er gífurlegur þegar við horfum til erlendra stórverksmiðja, þar sem ekki eru gerðar sömu kröfur til öryggis, staðla og dýraverndar á mörgum stöðum. Framleiðslukostnaður þeirra er, eðli máls samkvæmt, lægri per kíló en hjá íslenskum fjölskyldubónda.

Þeir sem setja fyrirvara á framtíðarspárnar geta horft á þá raunverulegu hagræðingu, sem hefur átt sér stað í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þar hafa mjólkurframleiðendur náð að hagræða milljörðum króna, sem skilar sér bæði til framleiðenda og bænda.

Deila um samkeppni

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur gert athugasemdir við veitingu ofangreindrar heimildar, en þar eru gerðar athugasemdir við að sameining afurðastöðva gæti dregið verulega úr samkeppni á þeim markaði, með tilheyrandi áhrifum. Það er vissulega hlutverk SKE að fylgjast með samkeppni hér á landi og tryggja jafnvægi á markaði. Hins vegar þurfum við að geta horft á raunverulegar aðstæður, til dæmis hvað varðar samkeppnisbaráttu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutt matvæli. Samkeppni sem má líkja við Davíð og Golíat. Það er komið að okkur að standa með Davíð og rétta honum slöngvuna. Í þessu máli eigum við frekar að líta til búvörulaga en samkeppnislaga, en markmið búvörulaga er einmitt að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara og afkomu íslenskra bænda.

Lög og túlkun þeirra

Í málum sem varða matvælaframleiðslu og landbúnað hefur sú regla almennt gilt að landbúnaðarstefna skuli hafa forgang fram yfir samkeppnisákvæði. Þennan forgang hefur Evrópusambandið m.a. staðfest.

Í umfangsmikilli umsögn SKE, sem margir leggja grundvöll á í þessu máli, er meginþunginn lagður á túlkun samkeppnislaga. Það er skiljanlegt, enda samkeppnislögin þau lög sem stofnunin byggir almennt sínar ákvarðanir og athugasemdir á. Hins vegar gilda sérlög um landbúnað hér á landi, þ.e. búvörulögin, sem eiga að njóta forgangs. Við í Framsókn höfum margsinnis lagt það til að undanþága frá samkeppnisákvæðum verði sett í búvörulög, 71. gr. A búvörulaga sem veitir slíka undanþágu, og með því verði sameining afurðastöðva gerð heimil.

Skjaldborgin

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að styðja við íslenskan landbúnað, neytendur og tryggja fæðuöryggi landsins. Með lagagjöf sem þessari eflum við íslenskan kjötiðnað til muna, gerum hann samkeppnishæfari á innlendum og alþjóðlegum markaði ásamt því að gera íslenskar afurðir aðgengilegri neytendum. Það er skjaldborgin sem við eigum að slá og við höfum engan tíma að missa. Ég vil því hvetja matvæla­ráðherra áfram í að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.