Íslendingar! Nú þurfum við að hugsa okkar ráð!
Hver verður nú forsætisráðherra fari kosningarnar á versta veg? Hvaða einstaklingur og flokkur er líklegur til að geta leitt hér þriggja flokka stjórn, svo ekki sé talað um fjögurra flokka stjórn? Stillið nú upp formönnum flokkanna og spyrjið ykkur sjálf hver þeirra sé líklegastur. Ég efast ekki um að þar er Sigurður Ingi Jóhannsson fremstur meðal jafningja. Hann sýndi það vel 2016 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð að segja af sér, þá féll allt strax í ljúfa löð og þjóðin kunni að meta störf Sigurðar Inga. Með honum sækja fram ráðherrar sem hver og einn hefur getið sér gott orð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, hefur farið fyrir mikilli sókn í menningu og listum. Lilja hefur verið talsmaður íslenskrar tungu og komið henni inn í gervigreind og goggul. Lilja stóð í stafni í Seðlabankanum þegar þjóðinni var bjargað af gjaldþrotsbarmi 2013- 2016.
Willum Þór Þórsson er óumdeildur einn öflugasti heilbrigðisráðherra þessarar aldar. Hvar sem ég fer fær hann hrós lækna og heilbrigðisstarfsfólks sem lausnamiðaður og að hann hafi komið mörgum málum í höfn í starfi sínu, og fólkið vill sjá hann áfram í starfi heilbrigðisráðherra.
Ásmundur Einar Daðason hefur reynst íþróttahreyfingunni öflugur ráðherra og tekið að sér viðkvæmasta og mikilvægasta málaflokkinn, blessuð börnin, og ekki síst þau sem eiga við erfiðleika að búa.
Halla Hrund klífur tinda
Halla Hrund Logadóttir er nýr stjórnmálamaður og magnaður talsmaður hugsjóna og gilda sem snerta við hverjum þeim sem hlustar á boðskap hennar. Hún talar fyrir auðlindum Íslands af meiri virðingu en flestir aðrir. Hún vill ekki vindmyllur á annan hvern hól. Hún talar um landbúnað og bændur af þrótti og óskar þess að landsmenn beri sömu virðingu fyrir afurðum landbúnaðarins, skyrinu, lambinu, ullarvörunum og grænmetinu, og Frakkar gera fyrir sínum vörum. Hún talar fyrir landvernd, grænni orku og nýtingu auðlindanna af skynsemi. Margir flokkar hafa valið sér fræg andlit en við framsóknarmenn setjum fram konu sem klífur tinda.
Framsóknarmenn og friðflytjendur! Nú skulum við efla þann flokk sem oftast hefur reynst best þegar þjóðin hefur staðið á sundrungarbarmi. Framsóknarflokkurinn býður upp á lausnir í húsnæðismálum unga fólksins, lækkaðan matarskatt, lægri vexti og að við kjósum verðbólguna burtu. Við viljum hvorki Trumpista né sósíalískt þjóðfélag. Við viljum búa í samvinnu- og jafnaðarmannasamfélagi þar sem atvinna og atvinnulíf blómstrar. Sendum sundurlyndisfjandann á fertugt dýpi og kjósum með landinu okkar og tækifærunum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það Framsókn sem er besti kosturinn.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2024.