Categories
Fréttir

Framtíð lýðræðis í Evrópu

Deila grein

17/05/2023

Framtíð lýðræðis í Evrópu

„Við höfum verið að sjá hnignun lýðræðis jafnt og þétt síðustu ár svo staðan núna ætti varla að koma okkur stórkostlega á óvart,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á málþingi Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um lýðræði fyrir framtíðina sem fór fram í Veröld húsi Vigdísar um helgina.

Á málþinginu sköpuðust góðar umræður um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni.

Meðal framsögufólks auk menningar- og viðskiptaráðherra voru Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Sviatlana Tsikhanovskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Mariia Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar.

Ógn steðjar að lýðræðinu

Í vestrænum samfélögum hefur almennt verið sú sýn að lýðræði sé hornsteinn farsælda þrátt fyrir að stjórnarfyrirkomulagið sé ekki gallalaust. Hins vegar hefur ekkert stjórnarfar reynst betra enda byggist það á skýrum lögum, frelsi einstaklinga til athafna og tjáningar, valddreifingu og sjálfstæðum dómstólum ásamt reglubundnum kosningum.

„Staðan í heiminum í dag er sú að fleiri búa við einræði eða um 72% íbúa heimsins samanborið við 50% fyrir áratug samkvæmt greiningu Lýðræðis margbreytileikans. Í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi eru fleiri einræðisríkisstjórnir en lýðræðisríkisstjórnir. Því miður er vaxandi skoðun að annað stjórnarfar en lýðræði geti búið til betri lífskjör,“ sagði ráðherra á málþinginu.

„Þjóðir heims geta ekki horft fram hjá þessu og verða að spyrja sig gagnrýnna spurninga. Ógn steðjar að lýðræðinu og ein birtingarmynd þess er stríðið í Úkraínu. Þá sé mikilvægt að standa vörð um frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi einstaklinga ásamt því að sporna gegn falsfréttum og hatursorðræðu.“

Mikilvægt að hvetja til þátttöku

Þá var mikið rætt um stöðu minnihlutahópa, bil á milli kynslóða og áhrif loftslagsbreytinga á samfélög. Ráðherra hvatti ungt fólk að gera sig gildandi í umræðunni, taka þátt í stjórnmálum og grasrótarsamtökum og láta rödd sína heyrast sem víðast.

Fram kom í máli Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, að vaxandi áhyggjur séu upp varðandi hnignun lýðræðis í Evrópu. Rússland hafi til að mynda færst frá því að vera lýðræðisríki. Það sé von margra að leiðtogafundurinn í Reykjavík marki ákveðin þáttaskil þegar 46 leiðtogar heimsins sameinast um ákveðna hornsteina lýðræðis. Markmiðið sé að endurvekja, styrkja og í einhverju tilvikum enduruppgötva þá.

„Lýðræðið er fólksins, ekki stjórnmálamanna, og því mikilvægt að hvetja það til að taka þátt og viðhalda lýðræðinu,“ sagði Tiny Kox á málþinginu.

Málþingið er hluti af dagskrá fundar stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins sem kemur saman í Reykjavík í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins sem fer nú fram í Hörpu.

Heimild: stjr.is