Categories
Fréttir

Framtíð matarnýsköpunar

Deila grein

12/02/2021

Framtíð matarnýsköpunar

Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík hélt opin fund í gærkvöldi um framtíð nýsköpunar í matvælaiðnaði. Á fundinum komu fram Brynja Laxdal, markaðsfræðingur og fyrrum verkefnastjóri Matarauðs Íslands, Finnbogi Magnússon, formaður stjórnar Landbúnaðarklasans, ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Íris Gísladóttir, formaður Ung Framsókn í Reykjavík stýrði fundinum.

Farið var yfir víðan völl er kemur að tækifærum sem felast í nýrri tækni og nýjum leiðum til framleiðslu matvæla hér á landi. Augljóst var á fyrirlestrum Brynju og Finnboga að gríðarleg vaxtartækifæri væru í matvælaframleiðslu hér á landi. Þar má þakka nýrri tækni og því mikla hugviti sem býr í þeim framúrskarandi frumkvöðlum sem hafa lagt alúð sína í að tryggja Íslendingum hágæða matvöru framleidda úr þeim hágæða hráefnum sem finnast hér á landi.

Töluverð gróska hefur verið á þessu sviði síðustu ár og tilraunir til fjölbreyttari framleiðslu hafa skilað góðum árangri. Mikið er af matarfrumkvöðlum víðsvegar um land sem hafa með einstakri natni hafið fjölbreytta framleiðslu sem eru nú í boði fyrir landsmenn. Þó nokkur fyrirtæki hafa gert sér mat úr kartöflunni, en þar má til að mynda nefna Álfur brugghús og Ljótu kartöflurnar sem framleiða annarsvegar bjór og hinsvegar snakk úr kartöflum sem annars fara til spillis. Connective Collective, Bone & Marrow og North Marine Ingredients hafa einnig fundið leiðir til að nýta hráefni sem annars er hent með góðum árangri. Þá hafa fjölmargir frumkvöðlar hafið notkun á jurtum landsins við framleiðslu á matvörum, áfengi, lyfjum og hágæða snyrtivörur. Þannig mætti lengi telja. 

Ljóst er að mikil tækifæri felast í aukinni fjölbreytni í fullvinnslu matar, ræktun fjölbreyttara grænmetis og matjurta. Í því samhengi hefur verið horft til þess að nýta heita vatnið sem er ein af okkar bestu náttúrulegu auðlindum til þess að stunda útiræktun á ökrum allt árið um kring. Enn fleiri horfa einnig til aukinnar nýtingu á þeim gróðri sem hér vex náttúrulega, s.s. smáþörunga, gras, lúpínu, túnfífil, vallhumal, hvönn, njóla, burnirót, hafþyrni, kúmen, mjaðjurt, hamp, lín ofl. 

Þó svo að töluverð gróska hafi farið af stað mátti heyra að enn stæðu ákveðnar hindranir í vegi fyrir enn meiri grósku í matarnýsköpun. Þar bar hæst erfiðleikar við að fóta sig í frumkvöðlaumhverfinu og að geta aflað fyrirtækjum nauðsynlegt fjármagn til að koma þeim af hugmyndastigi í sölu í búðir. Aukin samheldni og samvinna frumkvöðla á milli gæti hjálpað við það og því væri áhugavert að sjá hvort áform um uppbyggingu frekari klasastarfsemi hér á landi hefði jákvæð áhrif. Markviss innkaup á innlendri framleiðslu ríkis og sveitarfélaga gæti einnig ýtt undir slíka grósku. 

Möguleikarnir í auknum útflutningi matvæla myndi einnig styrkja enn frekari uppbyggingu í matvælaiðnaði. Íslenskir framleiðendur eiga þar mikið af ónýttum tækifærum. Hægt væri að nýta enn frekar ímynd Íslands sem hið hreina, örugga og óspillta land sem hefur byggst upp í tengslum við ferðaþjónustu í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis. Markviss markaðssetning með þeim hætti myndi gera íslenskum matvælaframleiðendum kleift að gera útflutning á fjölbreyttari matvöru jafn arðbæra og útflutningur fisks hefur verið. Þannig væri hægt að skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur fyrir land og þjóð.

Mörg tækifæri felast á þessu sviði, bæði við ræktun fjölbreyttari fæðu sem og í frekari fullnýtingu þeirra landbúnaðarvara sem nú þegar eru framleidd hér á landi. Fróðlegt var að heyra svo margar hliðar á þessum spennandi iðnaði sem á framtíðina fyrir sér hér landi.

Ef þú misstir af fundinum þá getur þú séð upptökur af beinu streymi fundarins á fésbókarsíðu UngFramsókn í Reykjavík