„Hæstv. forseti. Kannanir sýna að fólk ber almennt ekki traust til Alþingis. Ef það er vilji þingmanna að auka traust almennings til Alþingis þá verðum við að greina hvar vandinn liggur og vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur í þeim efnum. Stalla mín, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, hefur verið óþreytandi við að koma upp í þessa pontu og tala fyrir breyttum og bættum vinnubrögðum. Ég er oft sammála henni. Hæstv. forseti Einar Kr. Guðfinnsson hefur einnig talað fyrir bættum vinnubrögðum og auðvitað fleiri þingmenn hér. Ég vona að raunverulegur vilji sé að baki orðum okkar og að þau hafi áhrif.
Okkur varð lítið úr verki fyrir áramót, að hluta til vegna þess að málin komu seint inn frá ríkisstjórn en einnig vegna þess að þau sem rötuðu inn í sal Alþingis voru flestöll tekin í málþóf. Örfá þingmannamál komust á dagskrá þingsins fyrir áramót þar sem umræðan um þau strandaði á einu umdeildu máli, áfengisfrumvarpinu. Ég er til dæmis ekki hlynnt því frumvarpi en ég mun samt ekki standa að því að tefja að það komist til atkvæðagreiðslu.
Tilgangur umræðunnar í þingsalnum er að menn skiptist á skoðunum og dragi fram ólík sjónarmið. Síðan fara mál til nefnda þar sem umsagnir eru yfirfarnar og málin greind nánar. Til að bæta ásýnd þingsins sæi ég fyrir mér litla breytingu, t.d. að þingflokkar legðu aukna áherslu á að ná samkomulagi sín á milli um fjölda þingmanna sem taka þátt í umræðu hverju sinni. Þannig væri hægt að áætla þann tíma betur sem fer í umræðurnar og skipuleggja störf þingsins betur. Að auki þarf að afgreiða ákveðnar breytingar í þingskapanefnd, eins og komið hefur fram. Við getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við gerum. Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal. Ábyrgðin er okkar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — Í störfu þingsins 20. janúar 2016.
Categories
„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“
25/01/2016
„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“